Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul.

Efnahagsyfirlit - 23.01.2018

Eftirstríðskynslóðin á eftirlaun

Aukin ásókn í nám og babyboomers á eftirlaunum kunna að skýra að mestu að hlutfall starfandi á vinnumarkaði hefur lækkað síðustu misseri. Hlutfallið hefur einkum lækkað meðal karla en atvinnuleysi meðal þeirra hefur aukist lítillega en hefur dregist saman meðal kvenna. Hlutfall starfandi náði hámarki í byrjun árs 2017 og var þá á svipuðum slóðum og skömmu fyrir hrun. Um þetta er fjallað í nýjasta Efnahagsyfirliti VR.

Á árunum eftir hrun jókst aðsókn í nám umtalsvert. Svo dró úr henni að sama skapi þangað til um mitt síðasta ár. Á fyrstu tveimur ársfjórðungum ársins 2017 voru u.þ.b. 2% landsmanna á vinnufærum aldri í námi en á þriðja ársfjórðungi hækkað það hlutfall í u.þ.b. 3%, eins og sjá má á mynd #1.

mynd1

Önnur skýring á lækkandi hlutfalli starfandi kann að liggja í aldurssamsetningu þjóðarinnar. Hin fjölmenna eftirstríðskynslóð, fædd á árunum 1946 til 1964 og þekkt sem babyboomers, er nú óðum að fara á eftirlaun - þeir fyrstu hafa þegar hafið töku lífeyris. Þessa þróun má sjá á mynd #2. Athugið að báðar myndir sýna fjölda sem hlutfall af mannfjölda á vinnufærum aldri, á ársfjórðungum hvers árs.

mynd2

Þriðja ástæðan sem fjallað er um í yfirlitinu er skörp hækkun fjarveru utan vinnumarkaðar vegna veikinda og á það einkum við um konur.

Og svo fleira ...

Í yfirlitinu er einnig fjallað um þróun verðbólgu á Íslandi og nágrannalöndunum en verðbólga á Íslandi hefur nú verið undir verðbólgumarkmiði í nær fjögur ár. Samkvæmt Hagstofu ESB er Ísland eina landið sem mælingar hennar ná til þar sem verðbólga án húsnæðisliðarins hefur verið neikvæð allt árið. Neðri mörk verðbólgu í Evrópu árið 2017 voru mörkuð af Íslandi. Þá er í yfirlitinu fjallað um þróun hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði síðustu ár en ef hámarkið hefði þróast í samræmi við launavísitölu ætti það að vera meira en tvöfalt hærra en raun ber vitni.