Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul.

Efnahagsyfirlit - 13.09.2019

Það er vinnuvikan sem skiptir máli

Margir mismunandi mælikvarðar eru til fyrir vinnutíma launafólks; hægt er að mæla lengd vinnuvikunnar, vinnutíma á mánuði eða vinnutíma á ársgrundvelli. En þegar verið er að tala um vinnutíma Íslendinga er eðlilegast að miða við hefðbundna vinnuviku fólks í fullu starfi. Það er lengd vinnuvikunnar sem hefur áhrif á jafnvægi vinnu og einkalífs, álag og streitu svo fátt eitt sé nefnt. Og það er vinnuvikan sem VR samdi um að stytta. Um þetta er fjallað í nýjasta Efnahagsyfirliti VR.

Vinnutíminn á Íslandi
Í Efnahagsyfirlitinu eru birtar tölur yfir lengd hefðbundinnar vinnuviku fullvinnandi launafólks í aðildarríkjum OECD en þar er Ísland með áttundu lengstu vinnuvikuna. Hin Norðurlöndin eru öll mun neðar á lista. Ársvinnutími, eins og Samtök atvinnulífsins fjölluðu nýverið um, er ekki marktækur mælikvarði þegar verið er að skoða vinnuvikuna á Íslandi í samanburði við aðra. Hefðbundin vinnuvika á Íslandi er lengri en í nágrannalöndunum, það sýna tölurnar.

Áhrif nýrra tekjuskattsbreytingar
Í yfirlitinu er einnig umfjöllun um áhrif breytinga á tekjuskattskerfinu á útborguð laun, en þær breytingar voru kynntar með fjárlögum fyrir árið 2020. Þar er birt tafla sem sýnir hvernig tekjuskattskerfi einstaklinga mun líta út að lokinni innleiðingu breytinganna árið 2021.

Sjá ítarlegri umfjöllun í Efnahagsyfirliti VR (pdf)