Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
rvk-3.jpg

Efnahagsyfirlit - 16.02.2017

Jákvæð áhrif breytinga á húsnæðisbótakerfi

Í nýjasta Efnahagsyfirliti VR er umfjöllun um nýtt húsnæðisbótakerfi, sem tók við þann 1. janúar 2017, og áhrif þess á leigjendur. Húsnæðisbætur eru hugsaðar til að aðstoða þá sem leigja íbúðarhúsnæði, hvort sem er í félagslega kerfinu, námsgörðum eða á hinum almenna leigumarkaði. Breytingarnar í hinu nýja kerfi eru jákvæðar, sem dæmi munu þær jafngilda ríflega 3,1% launahækkun fyrir einstætt foreldri með tvö börn, sé miðað við kr. 500 þúsund í mánaðarlaun.

Í yfirlitinu er settur fram samanburður á gamla og nýja kerfinu fyrir fjórar mismunandi heimilissamsetningar. Þar má t.d. sjá að einstætt foreldri með 1 barn og 400.000 kr. í heildarlaun á mánuði fær um 15 þúsund krónur aukalega á mánuði miðað við gamla kerfið. Par með tvö börn og heildartekjur uppá 800.000 kr. fær nú 19 þúsund krónur en fékk engar húsnæðisbætur í gamla kerfinu.

Efnahagsyfirlit VR er gefið út í tengslum við stjórnarfundi félagsins og er í því fjallað um helstu málefni líðandi stundar. Í yfirlitinu fyrir febrúar í ár er auk umfjöllunar um húsnæðisbótakerfið fjallað um fátækt á Íslandi, Norðurlöndunum og ESB, fjallað er um áhrif breytinga á greiðslu Fæðingarorlofssjóðs, aldurssamsetningu þjóðarinnar sem og vaxtamun við útlönd.