Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul.

Greinar - 25.08.2017

Hvað gerir trúnaðarmaður á vinnustaðnum?

Trúnaðarmaður er fyrst og fremst tengiliður starfsfólks við VR og atvinnurekandann.

Hlutverk hans er að vera til staðar fyrir samstarfsmenn, auðvelda samskipti við atvinnurekanda, miðla upplýsingum og hafa eftirlit með því að samningar séu haldnir á vinnustaðnum og lög ekki brotin á starfsfólki.

Hlutverk trúnaðarmanns er einnig að þekkja leiðir til úrlausnar ágreiningsmála, kynna breytingar og nýjungar, og hvetja félagsmenn til að leita sér upplýsinga.

Allir félagsmenn eiga greiðan aðgang að upplýsingum um réttindi sín á vr.is og hjá þjónustuveri VR. Með virkri þátttöku getur trúnaðarmaðurinn haft umtalsverð áhrif á þróun félagsins og starfsemi.

Er trúnaðarmaður á þínum vinnustað?

Starfsfólk á hverjum vinnustað kýs sér trúnaðarmann til tveggja ára í senn. Kosning fer fram í samráði við VR, en trúnaðarmaðurinn fær staðfestingu á kjöri og umboð sitt frá félaginu. Allir vinnustaðir með fimm eða fleiri VR félaga mega kjósa trúnaðarmann og ef þeir eru fleiri en 50 má kjósa tvo.

Hafðu samband við þjónustuver VR í síma 510 1700 eða vr@vr.is ef þú vilt koma á kosningu á þínum vinnustað.

Sjá nánar um kosningar trúnaðarmanna hér.