Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
vr_portret_Sigþrúður_kvennaathvarf.jpg

VR blaðið - 11.12.2017

Gefur þú af þér um jólin?

Margar dvalarkonur í Kvennaathvarfinu og ekki síst börn þeirra eiga erfitt yfir hátíðarnar.
Sigþrúður Guðmundsdóttir er framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins og lék okkur forvitni á að vita meira um lífið hjá þeim. Blaðamaður VR blaðsins hitti á Sigþrúði sem fræddi okkur um starfsemi Kvennaathvarfsins.

Hvert er hlutverk Kvennaathvarfsins?

Kvennaathvarfið er neyðarathvarf, eða tímabundið heimili, fyrir konur og börn þeirra sem ekki geta búið heima hjá sér vegna ofbeldis. Það er líka neyðarathvarf fyrir kvenkyns þolendur mansals. Jafnframt er Kvennaathvarfið miðstöð stuðnings og ráðgjafar fyrir konur sem búa eða hafa búið við ofbeldi, og aðstandendur þeirra. Á hverju ári búa rúmlega 200 konur og börn í athvarfinu um lengri eða skemmri tíma og um það bil 300 konur koma í viðtöl án þess að til dvalar komi.

Hversu margir starfa hjá Kvennaathvarfinu?

Í Kvennaathvarfinu starfa 13 konur í um það bil 10 stöðugildum. Það eru framkvæmdastýra, vaktstýra, sex ráðgjafar, félagsráðgjafi, lögfræðingur, fjármálastýra og verkefnisstýra. Nokkur fjöldi sjálfboðaliða starfar líka í tengslum við athvarfið.

Hvernig er lífið í Kvennaathvarfinu?

Lífið í athvarfinu er mjög mismunandi frá degi til dags. Á þessu ári hafa að meðaltali dvalið 23 íbúar, 13 konur og 10 börn, í athvarfinu á hverjum degi en mest hefur íbúafjöldi á árinu farið upp í 35 manns. Íbúar athvarfsins halda áfram sínu daglega lífi að því leyti sem mögulegt er og sækja til dæmis vinnu eða skóla ef aðstæður leyfa. Reynt er að skapa heimilislegt andrúmsloft í húsinu þó heimilið sé óhefðbundið, lífið þar ber þess merki að þar býr fólk frá öllum heimshornum og þar er oft glatt á hjalla þó annað mætti ætla.

Hvernig ganga jólin fyrir sig hjá ykkur?

Lögð er áhersla á að jólin séu „jólaleg“ í athvarfinu. Þar dvelur alltaf nokkur hópur fólks yfir jólin og er reynt að sjá til þess að allir hafi það sem best. Margir hugsa hlýlega til íbúa hússins, ekki síst barnanna, í kringum jólin og allir fá eitthvað til að gleðjast yfir. Reynt er að taka mið af mismunandi matarhefðum og eru því oft margir réttir á jólaborðinu.

Eru til tölur um hversu margir hafi leitað að jafnaði til Kvennaathvarfsins yfir hátíðarnar undanfarin ár?

Undanfarin ár hafa á bilinu 10 til 20 íbúar dvalið í athvarfinu yfir jólin.

Hver voru viðbrögð ykkar þegar VR hafði samband vegna jólaleiksins?

Mikil gleði og þakklæti því hann felur í sér tvennt sem okkur er afar mikilvægt. Annars vegar fögnum við öllu sem getur bætt líf og aðstæður fólksins „okkar“ og hins vegar er okkur dýrmætt að vita að þarna úti er fólk sem hugsar hlýlega til athvarfsins og íbúa þess. Konur og börn sem hafa þurft að flýja heimili sín vegna ofbeldis er ekki hávær hópur og það er gott til þess að vita að fólk man eftir honum og vill gera honum gott.

Viðtal birtist í 4. tölublaði VR blaðsins 2017