Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
vr_selfoss_gills-1.jpg

VR blaðið - 06.12.2017

VR Suðurlandi - Stórbætt þjónusta við sameiningu

Verslunarmannafélag Suðurlands sameinaðist VR fyrr á þessu ári og úr varð skrifstofa VR á Suðurlandi. Skrifstofan þjónustar um 22% af öllu landsvæði Íslands en Gils Einarsson, formaður deildarinnar á Suðurlandi, segir að bætt þjónusta hafi verið aðalástæða þess að ákveðið var að sameinast VR.

„Það var aðallega tvennt sem varð til þess að sameining við VR var talin besta lausnin fyrir félagsmenn á Suðurlandi. Það var annars vegar að við vorum farin að sjá aukningu í hópnum sem sótti um í sjúkrasjóðinn hjá okkur og samhliða því hafði fólki fækkað í félaginu. Eftir hrun höfðu fyrirtæki sagt upp starfsfólki og þó salan hafi náð sér á strik hjá flestum eftir hrunið var ekki verið að bæta við starfsfólki. Þetta hefur þau samverkandi áhrif að fólk brennur út og missir vinnuna vegna veikinda og þarf á sjúkrasjóðnum að halda. Þá er ofboðslega mikilvægt að hér sé sjúkrasjóður sem getur annað þessu. Hins vegar hafði félagið ekki nægilegt bolmagn til að sinna þessu stóra svæði svo vel mætti við una. Það er dýrt og mjög tímafrekt að keyra til dæmis eins og austur á Kirkjubæjarklaustur. Félagssvæðið hérna er mjög stórt, allt frá Lómagnúp í austri að Herdísarvík í vestri, og svo upp í Kerlingarfjöll og hálendismiðstöðina á Sprengisandi. Það var farið að hamla okkur dálítið að geta ekki sinnt vel þeim fyrirtækjum sem eru á þessu svæði og þá var farið að ræða sameiningu við stærri félög. Eftir könnun sem send var til félagsmanna VMS kom til greina annað hvort sameining við Báruna hérna á Selfossi eða VR. Sjálfur var ég fyrst um sinn hlynntari sameiningu við Báruna, félag sem væri hér á svæðinu og meira að segja í sama húsi og við. En þegar ég fór að skoða hlutina betur þá sá ég að sameining við VR væri skynsamleg, bæði hvað varðar sjúkrasjóðinn og aðra þjónustuþætti. Sameiningin við VR var svo samþykkt í lok janúar með 80% atkvæða. VR er komið langt í það að vera landsfélag en nú eru bara þrjú hrein verslunarmannafélög á landinu. Svo þetta er að breytast og kannski kemur að því að þetta verður eitt félag verslunar- og skrifstofufólks á landinu sem væri góð og eðlileg þróun.

Kjaramálin og vinnustaðaheimsóknir mikilvægir þjónustuþættir

Kjaramálin eru okkar aðalverkefni og fólk hér á Suðurlandi kemur mjög mikið hingað, bæði ef það þarf einhverja aðstoð en líka bara til að hitta okkur, það hefur alltaf verið mikið um að fólk reki inn nefið og það er alltaf velkomið hingað, nú sem áður. Auðvitað hefur ýmislegt breyst, sumt af því sem við unnum hér á staðnum er nú gert í Reykjavík enda margir sem starfa þar á sviði kjaramála. Ef ég er ekki við hér á skrifstofunni þá er ekkert þjónustuleysi, þá færðu bara einhvern annan kjaramálafulltrúa og hann getur leyst úr hlutunum og fólk getur komið hérna til okkar með pappíra og við leysum úr þessu, hvort sem þau taka það í Reykjavík eða við hér. Allt kjaramálasviðið í Reykjavík ásamt deildunum úti á landi fundar einu sinni í viku og ef það koma upp einhver vandamál eða spurningar þá er það tekið fyrir á þessum fundum og það er rosalega sterkt að hafa svo stórt bakland hjá VR. Það er allt gert fyrir svæðið til þess að þjónustan verði skilvirkari og betri. Ég er sannfærður um það að langflestir eru núna orðnir sáttir við sameininguna og ánægðir og breytingin kemur mjög vel út.“

„Eitt af mínum helstu verkefnum eru vinnustaðaheimsóknirnar en þar hitti ég bæði starfsmenn og stjórnendur sem gerir það að verkum að við eigum tengiliði mjög víða. Það er mjög algengt að ég geti bara tekið upp símann ef það eru einhver mál sem koma upp og yfirleitt er hægt að leysa málin svoleiðis. Ég hef þurft að fara strax af stað, bæði austur í Skaftárhrepp og í Mýrdalinn ef eitthvað sérstakt hefur komið upp því það er margfalt betra að leysa hnútana í upphafi heldur en að leyfa þeim að magnast upp og verða fastari.“

Ég kemst núna tvo daga í viku í vinnustaðaheimsóknirnar en áður reyndi ég að komast einu sinni í mánuði á þessa staði hér í kring og lengra austur komst ég ekki nema kannski fjórum sinnum á ári. Ég legg af stað kl. 6 að morgni ef ég fer austur í Skaftárhrepp en á Kirkjubæjarklaustri og þar í kring eru 13 fyrirtæki og ég reyni að heimsækja þau öll. Svona vinnustaðaheimsóknir eru ótrúlega mikilvægar, bæði fyrir okkur og félagsmenn, að hittast og ræða málin. Reyndar er mjög algengt að ég fái hringingar dagana á eftir heimsókn en oft kvikna einhverjar vangaveltur og fólk vill athuga málin. Svo eru kannski ekki allir sem vilja að samstarfsfólkið heyri og þá er ágætt að geta bara tekið upp símann og ég hef hvatt fólk til þess. Ég segi alltaf að það sé best að allir vinni saman og oft er heppilegra að hlutlaus aðili komi að málunum. Auðvitað vil ég eiga gott samband við félagsmenn og ég er búinn að segja við þá vinnuveitendur sem ég þekki persónulega að ef þið brjótið á fólkinu okkar þá tek ég á því, alveg eins og hjá öllum hinum! Ég hef þurft að gera það en það leystist og allt svoleiðis en það stendur ekki í veginum fyrir því að maður vinni vinnuna sína.

VR bætist í vinnustaðaeftirlit á Suðurlandi

„Kolbrún Júlía Erlendsdóttir er nýr starfsmaður sem mun sinna vinnustaðaeftirliti hjá okkur en stéttarfélagið Báran hefur sinnt eftirliti á svæðinu um nokkurt skeið. Við höfðum áður ekki bolmagn til að sinna þessu en erum mjög ánægð að geta tekið þátt í þessu nú. Það skiptir öllu máli að vera í góðu samstarfi við hin stéttarfélögin enda erum við öll að gera það sama, við erum að vinna hérna fyrir fólkið okkar og eini munurinn er í hvaða stéttarfélag fólk greiðir. Við lögðum mjög mikið upp úr því að hér yrði áfram gott samstarf og okkur finnst það hafa tekist.“

Viðtal við Gils Einarsson birtist í 3. tölublaði VR 2017