Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
vr_alda_hronn-1.jpg

VR blaðið - 26.10.2017

Þrælahald á Íslandi?

Mansal er í daglegu tali nefnt nútíma þrælahald og er ein stærsta ógn sem mannkynið stendur frammi fyrir. Áætlað er að milljónir einstaklinga séu hagnýttir í mansal árlega, ýmist í eigin landi eða erlendis, í vinnumansal, kynlífsánauð, betl, líffærasölu eða með öðrum hætti.

__________________________________________________________________________________

Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) telur að 21 milljón einstaklinga séu þolendur mansals í heiminum í dag. Þar af eru um 4,5 milljónir seldir mansali í kynferðislegum tilgangi. Konur og stúlkur sem þolendur mansals eru taldar vera 11,4 milljónir og karlar og drengir um 9,5 milljónir. Mansal hefur um langt árabil, eða allt frá 2009, verið á forgangslista Evrópulögreglunnar (Europol) sem ein helsta vá í heiminum í dag.

Lagarammi

Árið 2000 var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna samningur gegn alþjóðlegri og skipulagðri glæpastarfsemi, svokallaður Palermó-samningur. Var tilgangur hans þríþættur. Í fyrsta lagi að koma í veg fyrir verslun með fólk, með sérstöku tilliti til kvenna og barna, í öðru lagi að vernda og aðstoða fólk sem fyrir slíku verður þannig að mannréttinda þess sé gætt til fulls og í þriðja lagi að stuðla að samvinnu aðildarríkja í því skyni að ná framangreindum markmiðum.

Það er ekki auðvelt verk að skilgreina í lögum háttsemi eins og mansal og hafa viðeigandi lagaákvæði tekið nokkrum breytingum frá því að refsiákvæði var fyrst lögfest í íslensk lög í mars árið 2003. Nokkrar efnislegar breytingar voru gerðar á ákvæðinu í desember 2009 þar sem tekið var tillit til fullgildingar Evrópusamnings um aðgerðir gegn mansali frá 2005.

Án þess að gera nákvæmlega grein fyrir lagaákvæði 227. gr. almennra hegningarlaga sem lýtur að refsingu fyrir mansal, má til einföldunar segja að lagaákvæðið geri ráð fyrir því að til þess að um mansal sé að ræða og sakfelling náist þurfi að vera til staðar að minnsta kosti einn verknaður, ein aðferð og ein hagnýting sbr. neðangreinda mynd:

Mynd 1 - Þrælahald á Íslandi?

Árið 2011 var gefin út ný tilskipun í Evrópu þar sem lögð var áhersla á að reyna að skilgreina þá hagnýtingarþætti sem tíðkast með verslun og hagnýtingu
fólks í mansali. Við bættist bann við að fólk væri hagnýtt í nauðungarhjónaband, sem húsþrælar, í skipulagða glæpastarfsemi og betl. Íslensk yfirvöld hafa ekki uppfært íslensk lög í samræmi við tilskipunina og því ná þau ekki yfir þessa þætti ólíkt því sem tíðkast í nágrannalöndum okkar.

Í gegnum tíðina hefur nokkuð verið rætt um vændi og mansal því tengdu þar sem vísbendingar eru um að konur séu seldar í kynlífsánauð. Það eru oft á tíðum þær staðalímyndir sem fólk hefur þegar rætt er um mansal. En það er einmitt kjarni málsins, staðalímyndum þarf að eyða því mansal getur hent hvern sem er, óháð stétt, stöðu, þjóðerni, kynþætti eða öðru. Síðustu ár hefur í auknum mæli verið rætt um vinnumansal og afleiðingar þess.

Alþjóðavinnumálastofnunin hefur skilgreint vinnumansal sem aðstæður þar sem einstaklingar eru neyddir til að vinna með því að beita ofbeldi, hótunum um ofbeldi eða öðrum fínlegri aðferðum, s.s. með uppsöfnun skulda, sviptingu persónuskilríkja eða hótunum um tilkynningu til útlendingayfirvalda.

Vinnumarkaðurinn á Íslandi og mannsal

Í vaxandi góðæri, minnkandi atvinnuleysi og með aukinni menntun hefur aukist mjög þörf fyrir erlent vinnuafl, einkum verkafólk. Það er í eðli sínu gott og því ber að fagna. Starfsmennirnir koma oft á tíðum frá svæðum og löndum þar sem velmegun er minni, launakjör lág eða afar bágborin og oft mikið atvinnuleysi. Fólksflutningarnir í Evrópu frá löndunum við Miðjarðarhaf og í norður-Afríku hafa líka áhrif svo og fleiri þættir. Fólk kemur hingað til lands til að auka lífsgæði og/eða afla fjár, ýmist í stuttan tíma í senn eða til langframa. Nauðsynlegt er að hafa í huga að við komuna til landsins þekkja fæstir íslenskan vinnumarkað, samfélagið og lög og reglur almennt. Af þessum ástæðum eru þeir sem hingað koma á framangreindum forsendum í meiri hættu að vera misnotaðir og blekktir og verða þolendur mansals. Að upplýsa launafólk og erlent vinnuafl um réttindi sín og hvert megi leita ef á þeim er brotið er því algert lykilatriði í baráttunni gegn mansali. 

Mikil vitundarvakning hefur verið á meðal stéttarfélaga um þessa þróun vinnumarkaðarins og hafa þau lagt í mikla vinnu að auka umræðu og aðrar forvarnir til handa launafólki. Helst hefur verið talið að ætlað vinnumansal á Íslandi þrífist í byggingariðnaði, í ferðaþjónustunni, þjónustu- og veitingageiranum, í landbúnaði, verksmiðjuiðnaði og skemmtanaiðnaði.

Hvernig berum við kennsl á mansal og hverjar eru vísbendingarnar?

Við þurfum að taka mið af aðstæðum fólks og bakgrunni þess, við þurfum að skilja aðstæður fólksins og vera meðvituð um það trúnaðarsamband og hollustu sem gjarnan ríkir á milli geranda og þolanda, svokallað Stockholm Syndrome. Oft eru þolendur afar óttaslegnir um afdrif fjölskyldu og vina sem kunna að sitja undir hótunum í heimalandi. Það er þó ekki algilt. Margir þolendur mansals hafa slæma reynslu af yfirvöldum og treysta því ekki að þeim verði hjálpað úr aðstæðunum. Þá er algengt að fólkið viti sjálft ekki hvað mansal þýðir og sjái sig hreinlega ekki sem þolendur mansals því kannski eru aðstæður þeirra betri undir ofurvaldi mansalans en í heimalandinu. 

Vísbendingar um mansal geta verið margvíslegar og þolendur mansals geta verið bæði Íslendingar og erlendir ríkisborgarar. Mansal þarf ekki að eiga sér stað yfir landamæri. Algeng einkenni mansals eru að þolandi hefur yfir að ráða litlum fjármunum, getur ekki sýnt fram á persónuskilríki því hann hefur þau ekki undir höndum, er kvíðinn og haldinn streitu í samskiptum, sérstaklega við yfirvöld. Fólk er e.t.v. ekki frjálst ferða sinna og er jafnvel fylgt í og úr vinnu af vinnuveitanda eða fulltrúa hans. Búseta þolenda er oft bágborin, þau búa gjarnan mörg saman og réttindi þeirra eru ekki virt hvorki er varðar vinnu- eða hvíldartími né atvinnuskilyrði almennt.
Þá hefur vinnuveitandi/mansali gjarnan orðið fyrir þeim og annast túlkun á samtali við yfirvöld. Afar mikilvægt er því að fá hlutlausa túlkun í samskiptum við þá aðila sem grunur leikur á að séu þolendur mansals. Í mansali þar sem kynlífsánauð er til staðar er einkenni gjarnan að lítið af fatnaði er til umráða.

Hvað er til ráða?

Samtakamáttar er þörf í baráttunni gegn mansali. Verslun með fólk er raunveruleiki í heiminum í dag og einnig hér á Íslandi. Það þurfa allir að leggjast á eitt, stjórnvöld, hlutaðeigandi stofnanir, sveitarfélög, samtök atvinnurekenda og launþega og samfélagið allt. Það þarf að beita öllum tiltækum ráðum, auka þekkingu á mansali, efla fjölmiðlaumræðu, bæta löggjöfina þar sem þess er þörf og beita þeim úrræðum sem lög mæla fyrir um til að stöðva þá skipulögðu glæpastarfsemi sem mansal er. Kerfið þarf að vera skilvirkt og kné þarf að fylgja kviði. Við, fólkið, erum samfélagið og ef kerfið er ekki að virka fyrir okkur þurfum við að breyta því.

Við „sjáum“ ekki mansal nema vita eftir hverju við eigum að horfa. Verum því meðvituð um umhverfi okkar og bregðumst við ef okkur grunar að mansal sé að eiga sér stað. Hikum ekki við að tilkynna til lögreglu ef minnsti grunur vaknar og trúum því að saman getum við varist þeirri vá sem mansal er og komið lögum yfir þá sem gerast sekir um slíkt. Það geta allir gert betur í baráttunni gegn mansali, hið opinbera, einkageirinn sem og samfélagið allt. Nú er tíminn, látum ekki mansal líðast, rjúfum þögnina!!

Alda Hrönn Jóhannsdóttir,
yfirlögfræðingur hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum

Grein birtist í 3. tölublaði VR 2017