Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul.

VR blaðið - 07.11.2017

Vöxtur í atvinnulífinu eykur mikilvægi vinnustaðaeftirlits

Kolbrún Júlía Erlendsdóttir er nýr starfsmaður VR í vinnustaðaeftirliti á Suðurlandi en Hjalti Tómasson, starfsmaður stéttarfélagsins Bárunnar á Selfossi, hefur sinnt vinnustaðaeftirliti á svæðinu um árabil. Saman mynda þau teymi sem heimsækir vinnustaði á félagssvæðinu og fylgjast með því hvort farið sé eftir lögum, reglugerðum og kjarasamningum, en slíkt vinnustaðaeftirlit var fest í lög árið 2010. Ýmis stéttarfélög hafa stundað eftirlit með vinnustöðum af mismiklum þrótti en frá árinu 2016 hefur markvisst verið unnið að því að koma á skipulagi og samræmdu verklagi hjá aðildarfélögum ASÍ.

Gríðarlegur vöxtur hefur verið í nánast öllum atvinnugreinum á Suðurlandi og erlendum starfsmönnum fjölgar jafnt og þétt. Þá er unga fólkið algengur starfskraftur í ýmis konar verslunar- og þjónustustörfum. Þessir tveir hópar eiga það sameiginlegt að vera lítið upplýstir um réttindi sín og kjör. Það er ljóst að víða hafa atvinnurekendur freistast til að nýta sér þessa vankunnáttu og reynt með ýmsum hætti að koma sér hjá því að uppfylla mörg ákvæði kjarasamninga gagnvart starfsmönnum sínum. Á ferðum sínum um Suðurlandið hefur vinnustaðaeftirlitið séð dæmi um að veikindaréttur sé ekki virtur, fólk sé látið vinna óhóflega langan vinnudag án aukagreiðslna og þá er einnig algengt að ákvæði um uppsagnarfrest séu ekki virt. Stéttarfélögin hafa orðið vör við slík vinnubrögð í sífellt meira mæli og hafa þau því lagt aukna áherslu á að koma réttum upplýsingum á framfæri við félagsmenn, ekki síður en stjórnendur og eigendur fyrirtækja.

Á félagssvæði stéttarfélaganna á Suðurlandi skipta kröfur um vangreidd laun umtalsverðum upphæðum og er stærstur hluti þeirra innheimtur með samkomulagi en stundum þarf að leita atbeina dómstóla svo fyrirtæki fari eftir gerðum samningum.

Vakni grunur um kjarasamningsbrot á vinnustað er ábendingu komið áleiðis til viðkomandi stéttarfélags sem grípur til viðeigandi aðgerða. Innan ýmissa starfsgreina, þar sem unnið er eftir fleiri en einum kjarasamningi, skarast samningar og er því náin samvinna í eftirliti nauðsynleg og hagstæð fyrir alla aðila. Dæmi um slíka vinnustaði eru hótel en þar eru störfin margvísleg og unnin eftir mismunandi kjarasamningum.

Þetta virka eftirlit með kjarasamningum er ný nálgun við að gæta hagsmuna félagsmanna og sýnir árangurinn að full þörf er á að stéttarfélögin séu virk og sýnileg úti á vinnustöðum, bæði fyrir félagsmenn sína en ekki síður stjórnendur fyrirtækjanna. Gríðarlega mikilvægt er að stéttarfélögin séu öflug í að koma réttum upplýsingum á framfæri og gera athugasemdir ef grunur leikur á að ekki sé rétt að málum staðið.

Dæmi um afrakstur vinnustaðaeftirlits á Suðurlandi

Eftir heimsókn eftirlitsaðila á gististað á Selfossi höfðu tvær starfsstúlkur samband við vinnustaðaeftirlitið á Suðurlandi. Kvörtuðu þær yfir óhóflegu vinnuálagi, lítilsvirðandi framkomu og að fá ekki greidd laun sín á réttum tíma. Við eftirgrennslan kom í ljós að hvorug stúlknanna hafði fengið greidd laun fyrr en eftir mikla eftirgangsmuni. Þá voru umsamin laun langt undir lágmarksviðmiðum kjarasamninga en vinnuskylda var nánast allan sólarhringinn þar sem þær þurftu að svara í síma fyrirtækisins og innrita gesti sem voru seinir fyrir eða tékka út þá sem fóru snemma í flug. Þeim var ekki séð fyrir mat en fengu stundum að taka pening úr afgreiðslukassanum til að kaupa sér að borða. Þær bjuggu saman í einu gluggalausu herbergi og þorðu ekki annað en læsa að sér á nóttunni vegna ágengni eiganda. Hvorki var haldið utan um unna tíma né gefnir út launaseðlar.

Farið var í að reikna út laun og innheimta. Stúlkurnar óttuðust um öryggi sitt og sótti starfsmaður stéttarfélagsins þær kvöld eitt og kom þeim fyrir á öruggum stað. Seinna var þeim komið til góðs fyrirtækis þar sem þær unnu þar til þær fóru heim seinna um haustið. Málalyktir urðu þær að það tókst að innheimta laun upp á rúma milljón kr. fyrir hvora þeirra en ekki fyrr en lögfræðingur félagsins var búinn að stefna fyrirtækinu fyrir dóm.

Annað dæmi er um vinnustað þar sem bæði er seld gisting og hestaferðir. Þar voru teknar niður tólf skráningar á starfsfólki en aðeins einn var á launaskrá. Hinir ellefu voru sjálfboðaliðar sem unnu launalaust við umhirðu, tamningar og ræstingar auk þess að leysa af í móttöku. Þessir sjálfboðaliðar voru allir kennitölulausir og ótryggðir en samkvæmt túlkun erlendra tryggingafélaga eru þeir sem eru með samevrópskt tryggingaskírteini ekki tryggðir við vinnu á Íslandi. Sjálfboðaliðunum var gerð grein fyrir stöðu sinni og að þetta væri ólöglegt og áhættusamt fyrir þá persónulega. Stjórnendum fyrirtækisins var afhent sameiginleg yfirlýsing ASÍ og SA um launalausa vinnu auk álits ríkisskattstjóra á launalausri vinnu í efnahagslegri starfsemi. Þetta fyrirtæki hefur síðan tekið sig á að miklu leyti en þó er enn haft eftirlit þar reglulega.

Grein birtist í 3. tölublaði VR blaðsins 2017