Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
VRWOW.png

Almennar fréttir - 29.03.2019

VR gerir kröfu í þrotabú WOW air fyrir hönd félagsmanna sinna

VR mun gera kröfu í þrotabú WOW air fyrir útistandandi launum, launum á uppsagnarfresti og áunnum réttindum félagsmanna sinna, þegar þeir hafa skilað inn gögnum vegna málsins. Þess vegna er mikilvægt að allir skili inn til VR launaseðlum sl. 6 mánaða, ráðningarsamning ef hann er til og öðrum gögnum er tengjast vinnusambandinu. Rétt er að nefna að launakröfur eru forgangskröfur í þrotabú sem þýðir að slíkar kröfur eru greiddar fyrstar ef einhverjar eignir eru fyrir hendi í búinu. Ef þrotabúið reynist eignarlaust eru launakröfur tryggðar hjá Ábyrgðasjóði launa upp að hámarki kr. 633.000 á mánuði. Launakröfur síðustu þriggja mánaða í starfi eru tryggðar auk allt að þremur mánuðum í uppsagnarfresti. Hér eru frekari upplýsingar um gjaldþrot fyrirtækja og réttarstöðu starfsmanna.

VR vill benda félagsmönnum á að mikilvægt er að þeir skrái sig atvinnulausa hjá Vinnumálastofnun sem allra fyrst þar sem bætur eru greiddar frá þem degi sem umsókn berst auk þess sem slík skráning er forsenda þess að Ábyrgðasjóður launa greiði út launakröfu vegna óunnins uppsagnarfrests hjá gjaldþrota fyrirtæki.
Sjá hér vef Vinnumálastofnunar.

Þar sem laun vegna marsmánaðar verða ekki greidd af félaginu hefur stjórn VR ákveðið að lána starfsmönnum ákveðna upphæð vegna marslauna sem VR fær svo greitt frá Ábyrgðasjóði launa þegar uppgjör á sér stað. Greiðslan mun ekki nema hærri upphæð en sem sjóðurinn tryggir.

Ef þú hefur frekari spurningar um réttarstöðu þína hafðu samband við kjaramálasvið VR í síma 510 1700 eða sendu fyrirspurn á vr@vr.is.