Allir geta verið með

Á listum yfir Fyrirtæki ársins 2021 eru rúmlega 100 fyrirtæki sem eru stjörnumerkt. Þessi merking þýðir að fyrirtækið hafi tryggt öllum starfsmönnum sínum þátttökurétt í könnuninni, óháð því hvort viðkomandi starfsmaður er í VR eða ekki og óháð starfshlutfalli viðkomandi. Auk þess buðu tvö önnur fyrirtæki starfsmönnum sínum utan VR þátttöku en náðu ekki lágmarki fyrir birtingu, sem er 35% svörun og tiltekinn fjöldi svara.

VR tók þá ákvörðun árið 2003 að gefa fyrirtækjum færi á að allir starfsmenn gætu tekið þátt í könnuninni. Möguleikinn á þátttöku alls starfsfólks eykur mjög notagildi könnunarinnar fyrir stjórnendur fyrirtækja, því fleiri sem taka þátt því betur endurspegla niðurstöðurnar afstöðu allra starfsmanna, ekki eingöngu félagsmanna VR á vinnustaðnum.

Við viljum líka benda á að hjá mörgum fyrirtæki á listum eru eingöngu félagsmenn VR án þess að þessi fyrirtæki séu stjörnumerkt. Stjörnumerking fæst eingöngu ef fyrirtæki tryggja starfsmönnum þátttökurétt, með því að senda inn beiðni um þátttöku til félagsins eða láta vita á annan hátt. Stjórnendur um eitt þúsund fyrirtækja á íslenskum vinnumarkaði fengu í upphafi árs sendan kynningarbækling þar sem þessi möguleiki var kynntur. Allir félagsmenn VR fá senda könnun og er það fyrirtækjum að kostnaðarlausu. Þátttaka annarra starfsmanna felur hins vegar í sér kostnað fyrir fyrirtækin.