Gallup sá um framkvæmd könnunar VR á Fyrirtæki ársins 2021 og úrvinnslu niðurstaðna. VR hefur staðið fyrir könnun á fyrirtæki ársins í rúm 20 ár.

Könnunin 2021 náði til allra félagsmanna VR. Að auki var fyrirtækjum boðið að senda könnun á allt starfsfólk, óháð stéttarfélagsaðild þeirra. Alls nýtti 114 fyrirtæki sér þetta boð. Listi kom frá þessum fyrirtækjum með nöfnum og netföngum og/eða símanúmerum starfsfólks.

Fyrirtæki ársins 2021 fór þannig fram að félagsmenn VR fengu sendan tölvupóst, ef netfang var til staðar. Hringt var í félagsmenn sem ekki voru með netfang og þeim boðið að taka þátt í könnuninni á netinu. Ef þeir samþykktu var netfangs aflað og könnunin síðan send til þeirra. Einnig var hringt í félagsmenn þar sem könnun virtist ekki komast til skila eða þar sem netfang var rangt. Þá var hlekkur á könnunina aðgengilegur félagsmönnum á Mínum síðum á vef VR. Starfsfólk þeirra fyrirtækja sem bauð öllum þátttöku fékk spurningalista sendan í tölvupósti ef slíku var komið við. Þeir sem ekki voru með skráð netfang en uppgefið símanúmer fengu hlekk að könnuninni sendan með SMS.

Alls voru 35.203 í þýðinu sem er fækkun frá því árið 2020 þegar fjöldinn var um 40 þúsund. Svör bárust frá 12.382 starfandi einstaklingum um 700 fyrirtækja en 517 svör voru ekki nothæf og því voru svör 11.865 notuð við úrvinnslu, sem gerir um 36,5% svarhlutfall. Svarhlutfall lækkar frá árinu 2020 en þá var það 37,8%. Mikilvægt er að hafa í huga að þetta er svörun úr heildarhópi eða þýði því allir félagsmenn VR, að uppfylltum framangreindum skilyrðum, höfðu möguleika á að taka þátt.

Til þess að fyrirtæki væru tekin með í greininguna á Fyrirtæki ársins 2021 þurfti fjöldi svarenda að ná ákveðnu lágmarki. Krafa var gerð um 35% svarhlutfall frá fyrirtæki. Auk þess var miðað við að lágmarki 7 svarendur svöruðu hjá fyrirtækjum með færri en 50 starfsmenn. Hjá fyrirtækjum með 50 til 99 starfsmenn þurftu að lágmarki 10 að svara, 20 starfsmenn hjá fyrirtækjum með 100 til 499 starfsmenn og 50 starfsmenn hjá fyrirtækjum með 500 starfsmenn eða fleiri. Alls uppfylltu 148 fyrirtæki þessi skilyrði og byggjast niðurstöður Fyrirtæki ársins 2021 á svörum 7.212 starfsmanna þessara fyrirtækja.

Mælingar

Fyrirtæki ársins 2021 voru valin með þeim hætti að spurningalisti var lagður fyrir starfsfólk þar sem það var innt eftir mati á innra starfsumhverfi vinnustaðarins. Mælingin náði til níu mismunandi þátta í starfsumhverfi fyrirtækja en með því að láta mælinguna ná til margra þátta fæst heilsteypt mynd af innra starfsumhverfi þeirra. Svo víðtæk mæling hjálpar stjórnendum einnig að átta sig betur á stöðu mála hjá sínu fyrirtæki því þeir fá niðurstöður um hvern þátt starfsumhverfisins. Þannig er auðveldara að sjá í hvaða málum úrbóta er þörf og hvaða þættir eru í góðum farvegi.

Þáttagreining (factor analysis) var notuð til að greina undirliggjandi þætti sem skýra fylgni milli spurninga. Með þeirri aðferð kemur í ljós hvaða spurningar mæla tiltekin hugtök eða þætti, það er hvaða hugtök eru mæld í spurningalistanum og hversu mörg þau eru. Í þáttagreiningunni komu í megindráttum fram níu þættir. Þeir níu þættir sem komu fram eru viðhorf starfsfólks til stjórnunar, launakjara, vinnuskilyrða, sveigjanleika vinnu, möguleika starfsfólks á sjálfstæðum ákvörðunum í starfi, ímynd fyrirtækis, ánægja og stolt, starfsandi í fyrirtækinu og jafnrétti (sjá töflu 4).

Þættirnir níu eru samsettir úr þeim spurningum sem falla undir hvern þátt. Hverri spurningu er hægt að svara á fimm punkta kvarða þar sem annar endi kvarðans gefur til kynna mikla ánægju með það sem spurt er um en hinn endinn gefur til kynna mikla óánægju. Einkunn á hverjum þætti stendur því fyrir meðalánægju svarenda á þeim spurningum sem falla undir viðkomandi þátt. Spurningunum er raðað upp í töflunni eftir hleðslu þeirra á þáttinn þannig að sú spurning sem er með hæsta hleðslu er efst.

Aðferð

Valið á Fyrirtæki ársins 2021 byggist á heildareinkunn sem er samsett úr þessum níu þáttum. Allir þættirnir taka gildi á bilinu 1 til 5, þar sem 5 gefur til kynna mjög mikla ánægju starfsfólks með viðkomandi þátt í starfsumhverfi fyrirtækis síns en 1 gefur til kynna mjög mikla óánægju. Ef fyrirtækið er með gildið 3 á þætti þá gefur það til kynna að starfsfólk sé hvorki ánægt né óánægt með viðkomandi þátt í starfsumhverfi fyrirtækisins.

Í samsetningu heildareinkunnar er vægi þáttanna níu ólíkt (sjá töflu 1). Sama mælistika er á heildareinkunn og á þáttunum, lægsta gildi er 1 og gefur til kynna mesta óánægju en hæsta gildið er 5 og gefur til kynna mesta ánægju.

Tafla 1. Vægi þátta í heildareinkunn

Stjórnun 14%
Starfsandi 13%
Launakjör 9%
Vinnuskilyrði 12%
Sveigjanleiki vinnu 9%
Sjálfstæði í starfi 8%
Ímynd fyrirtækis 11%
Ánægja og stolt 11%
Jafnrétti 11%

Við þáttagreiningu var notuð principal axis aðferð með hornskökkum (oblique) snúningi og var fylgni milli þátta í öllum tilfellum hærri en 0,3. Samanlagt skýra þættirnir 68% af heildardreifingu breytanna (sjá breytur/spurningarnar í töflu 2 neðst á síðunni). Vægi einstakra þátta í heildareinkunn byggir á því hve stórt hlutfall dreifingarinnar hver þáttur skýrir af dreifingu allra spurninganna.

Vægi einstakra þátta í heildareinkunn byggir á því hve stórt hlutfall dreifingarinnar hver þáttur skýrir af dreifingu allra spurninga (sjá vægi þátta í töflu 1). Miðað var við að þáttahleðsla væri 0,3 eða hærri á viðeigandi þætti, en þá skýrir hvert atriði að minnsta kosti 9% af dreifingu þáttarins. Atriðagreining (item analysis) studdi það að þessi atriði áttu vel heima á viðeigandi þáttum. Á heildina litið voru atriði með góða þáttahleðslu við sína þætti. Við atriðagreiningu kom í ljós að þættirnir níu hafa góða innri samkvæmni (sjá töflu 2).

Tafla 2. Áreiðanleiki kvarðanna sem mynda heildarmælingu á Fyrirtæki ársins.

  Cronbach’s Alpha  Meðalfylgni Lægsta fylgni Hæsta fylgni
Stjórnun 0,95 0,66 0,54 0,82
Launakjör 0,85 0,66  0,56 0,78 
Vinnuskilyrði 0,88 0,51 0,40  0,65 
Sveigjanleiki vinnu 0,82 0,49 0,41 0,62 
Sjálfstæði í starfi 0,83 0,55  0,42  0,69 
Ímynd fyrirtækis 0,88 0,71  0,68  0,75 
Starfsandi 0,83 0,64 0,60  0,71 
Ánægja og stolt 0,93 0,76  0,68  0,81 
Jafnrétti 0,88 0,56 0,42  0,84 

Meðalheildareinkunn fyrirtækja sem komust á lista yfir Fyrirtæki ársins var 4,35. Af þáttunum níu var meðaltalið hæst á þáttunum sveigjanleiki vinnu og starfsandi en lægst á þættinum launakjör

Tafla 3. Meðaltöl þátta

  Fyrirtæki á lista með færri en 30 starfsmenn Fyrirtæki á lista með 30 til 69 starfsmenn Fyrirtæki á lista með 70 starfsmenn eða fleiri Öll fyrirtæki á lista
Heildarmeðaltal 4,47 4,33 4,22 4,35
Stjórnun 4,53 4,39 4,28 4,41
Starfsandi 4,61 4,48 4,37 4,49
Launakjör 3,80 3,60 3,41 3,61
Vinnuskilyrði 4,41 4,17 4,08 4,23
Sveigjanleiki vinnu 4,62 4,52 4,34 4,49
Sjálfstæði í starfi 4,53 4,41 4,33 4,43
Ímynd fyrirtækis 4,57 4,43 4,25 4,42
Ánægja og stolt 4,59 4,46 4,30 4,45
Jafnrétti 4,41 4,36 4,45 4,41

Tafla 4 - Þættirnir sem mynda mælingu á Fyrirtæki ársins 2020

Smelltu á plúsinn fyrir framan hvern þátt til að fá nánari upplýsingar.

 • Stjórnun

  • Ég fæ stuðning og hvatningu frá næsta yfirmanni mínum.
  • Næsti yfirmaður minn virðir starfsfólkið mikils.
  • Næsti yfirmaður minn er sanngjarn við starfsfólk.
  • Ég get leitað til næsta yfirmanns míns ef ég þarf á því að halda.
  • Næsti yfirmaður minn sér um að ég hafi möguleika til að þroska hæfileika mína.
  • Næsti yfirmaður minn bætir starfsaðstæður þegar þörf er á.
  • Það er skýrt til hvers næsti yfirmaður minn ætlast til af mér.
  • Á mínum vinnustað er starfsfólki hrósað þegar það stendur sig vel.
  • Hversu vel eða illa telur þú að þínum vinnustað sé stjórnað?
  • Ég ber fullt traust til stjórnenda fyrirtækisins.
 • Starfsandi

  • Mér finnst starfsandinn venjulega vera afslappaður og óþvingaður.
  • Samskipti eru opin og hispurslaus meðal samstarfsfólks míns.
  • Mér kemur vel saman við samstarfsfólk mitt.
 • Launakjör

  • Ánægja með launakjör.
  • Laun starfsfólks stofnunarinnar eru ákveðin af sanngirni.
  • Telur þú vinnuveitanda þinn veita betri, svipuð eða verri launakjör en gert er á öðrum sambærilegum vinnustöðum?
 • Vinnuskilyrði

  • Ánægja með vinnuaðstöðu, þ.e. vinnu- eða skrifstofurými.
  • Ánægja með lýsingu.
  • Ánægja með loftræstingu.
  • Ánægja með hljóðvist (ánægja eða óánægja með hljóð í rýminu).
  • Ánægja með matar- og kaffiaðstöðu.
  • Ánægja með öryggi á vinnustað.
  • Ánægja með tölvu- og tækjabúnað.
 • Sveigjanleiki vinnu

  • Ég get farið úr vinnu með litlum fyrirvara til að sinna aðkallandi erindum í einkalífi mínu.
  • Ég hef svigrúm til að útrétta í vinnutímanum þegar nauðsyn krefur.
  • Ertu ánægð(ur) eða óánægð(ur) með þann sveigjanleika sem þú hefur í vinnunni?
  • Ég á auðvelt með að samræma vinnu og fjölskyldulíf.
  • Ég á auðvelt með að taka sumarfrí/önnur frí á þeim tíma sem mér hentar.
 • Sjálfstæði í starfi

  • Mér finnst ég hafa góð tök á öllum þáttum starfs míns.
  • Mér finnst ég hafa næga yfirsýn yfir alla þá þætti sem krafist er af mér í starfi.
  • Markmiðin með starfi mínu eru skýr.
  • Þegar á heildina er litið hef ég mikil áhrif á hvernig starf mitt er unnið.
 • Ímynd fyrirtækis

  • Þegar fyrirtækið sem ég starfa hjá ber á góma er sú umræða yfirleitt vinsamleg.
  • Þegar á heildina er litið hafa viðskiptavinir jákvæða afstöðu til fyrirtækisins.
  • Þegar á heildina er litið er fyrirtækið sem ég starfa hjá talin vera mjög traust.
 • Ánægja og stolt

  • Á heildina litið er ég ánægð(ur) í starfi mínu.
  • Á heildina litið líður mér vel í starfi mínu.
  • Ég get mælt með vinnustaðnum sem góðum vinnustað við vini mína.
  • Ég er stolt(ur) af fyrirtækinu sem ég starfa hjá.
  • Á mínum vinnustað er lögð áhersla á jafnrétti kynjanna.
  • Á mínum vinnustað er skýr stefna um jafnrétti kynja.
  • Á mínum vinnustað finnst mér karlar og konur fá sömu tækifæri til starfsframa.
  • Á mínum vinnustað er fólki ekki mismunað (t.d. eftir aldri, kyni, uppruna, kynhneigð eða trúar- eða lífsskoðun).
  • Á mínum vinnustað starfar fjölbreyttur hópur einstaklinga (t.d. hvað varðar aldur, kyn, uppruna, kynhneigð eða trúar- eða lífsskoðun).
  • Á mínum vinnustað eru bæði konur og karlar í ábyrgðarstöðum.

Hugmyndafræðin

Í könnun VR á Fyrirtæki ársins er viðhorf starfsmanna til lykilþátta í starfsumhverfi vinnustaðarins metið. Könnunin er vettvangur fyrir félagsmenn til að koma skoðunum sínum á framfæri og láta stjórnendur vita af því sem vel er gert og hvað betur má gera. Niðurstöðurnar eru stjórnendum hafsjór upplýsinga og hagnýtur leiðarvísir um hvort úrbóta sé þörf og hvar. Þær sýna ekki einungis hver staða fyrirtækisins er í augum starfsmanna heldur einnig hver staða þess er í samanburði við önnur fyrirtæki á vinnumarkaði.

Virkjum mannauðinn

Hugmyndafræðin sem býr að baki Fyrirtæki ársins er sú að innra starfsumhverfi fyrirtækja hafi gríðarleg áhrif á afkomu þeirra ekki síður en ytri rekstrarskilyrði. Þau fyrirtæki sem einhverra hluta vegna virkja mannauð sinn illa eða alls ekki geti hvorki fært sér hagstæð ytri skilyrði í nyt né brugðist við neikvæðum rekstrarskilyrðum eða utanaðkomandi áföllum. 

Innra starfsumhverfi vísar í þessu samhengi fyrst og fremst til þeirra viðhorfa sem eru ríkjandi meðal starfsfólks. Hvaða augum lítur það starf sitt, starfsaðstöðu, samstarfsmenn, yfirmenn og stefnu og stjórnun fyrirtækisins? Hvert er viðmót yfirmanna í garð undirmanna sinna? Því neikvæðari sem þessi viðhorf eru þeim mun lélegra er innra starfsumhverfi fyrirtækisins.

Þetta má mæla á marga vegu. Í könnun VR byggja niðurstöðurnar á níu lykilþáttum: stjórnun (sem áður hét trúverðugleiki stjórnenda), starfsanda, launakjörum, vinnuskilyrðum, sveigjanleika vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd fyrirtækis, ánægju og stolti og jafnrétti sem kom fyrst til árið 2016. Þessir þættir endurspegla það traust sem ríkir í samskiptum innan fyrirtækisins, hversu stolt eða hreykið starfsfólkið almennt er af starfi sínu og fyrirtækinu sem það starfar hjá, þá virðingu sem yfirmenn bera fyrir starfsfólki sínu og það andrúmsloft sem ríkir á vinnustaðnum.

Ánægt starfsfólk = aukin gæði

Fyrirtæki sem telst eftirsóknarverður vinnustaður getur valið úr hæfasta starfsfólkinu og það nýtur góðs af mikilli launþegatryggð. Framleiðsla og þjónusta aukast að gæðum, þar sem samlegðaráhrifin eru þau að allt starfsfólk fyrirtækisins leggur sig fram um að ná árangri. Gott starfsumhverfi dregur úr álagi og streitu og eykur almenna starfsánægju sem stuðlar aftur að því að veikindadögum fækkar. Starfsfólkið sýnir frumkvæði í starfi sem ýtir jafnframt undir nýjungar í rekstri fyrirtækisins og árangursríka þróun. Fyrir vikið verður fyrirtækið sveigjanlegra gagnvart breytingum í rekstrarumhverfi þess eða breyttum samkeppnisaðstæðum. Ímynd fyrirtækisins verður sterk, bæði inn á við gagnvart starfsfólkinu og út á við og fyrirtækið nýtur jafnframt góðs af jákvæðu umtali.

Könnunin segir hvað þarf að gera betur

Fyrirtæki ársins gerir stjórnendum kleift að nálgast innra starfsumhverfi sitt með markvissum og árangursríkum hætti. Í fyrsta lagi eru niðurstöðurnar áreiðanlegt mælitæki á frammistöðu fyrirtækisins sem vinnustaðar. Þær segja til um hvort og þá hvaða vanda er við að etja og um leið hvaða sóknarfæri það á. Í öðru lagi veitir Fyrirtæki ársins mikilvægan samanburð á milli ára. Í þriðja lagi fela skilgreiningar Fyrirtækis ársins í sér öflug verkfæri sem stjórnendur geta beitt í samvinnu við starfsfólk til að gera vinnustaðinn eftirsóknarverðan.

Öflugt tæki fyrir VR

Niðurstöður könnunarinnar gefa VR skýra og viðamikla mynd af viðhorfum félagsmanna til vinnustaða sinna. Þessar upplýsingar nýtast félaginu í sinni kjarabaráttu, gefa VR færi á að meta hvaða áherslur skuli leggja í kröfugerð kjarasamninga og hvort breyta þurfi viðhorfi stjórnenda og / eða hins opinbera. Könnunin rennir þannig fleiri stoðum undir starfsemi og þjónustu félagsins.