Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
IMG_0610_vefur.jpg

Almennar fréttir - 24.04.2018

Nýtt samkomulag um stjórnkerfi lífeyrissjóða

VR og ASÍ hafa undirritað ný samkomulög við samtök vinnuveitenda um stjórnkerfi lífeyrissjóða. Breytingar sem nú verða eru svipaðar og þær sem VR hafði frumkvæði að með nýju fyrirkomulagi kosninga og opnara ferli við val í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna í ársbyrjun 2016. Auglýst verður eftir hæfum einstaklingum í stjórnir lífeyrissjóða. Ársfundir fara með æðsta vald sjóða.

Um er að ræða annars vegar samkomulag milli VR og Samtaka atvinnulífsins (SA) og Félags atvinnurekenda (FA) sem kemur í stað eldri samnings frá 1996 og svo samkomulag milli ASÍ og SA sem kemur í stað eldri samnings frá 1995. Stjórn VR hafði með samþykkt árið 2014 fetað sig inn á þá braut sem nú liggur fyrir í nýju samkomulagi aðila vinnumarkaðar. Það sem bætist nú við í samkomulagi ASÍ og SA er að ársfundir lífeyrissjóða, þar sem allir sjóðfélagar hafa rétt til fundarsetu, hafa nú æðsta vald í málefnum sjóðanna.

Þá kemur einnig til skipan sérstaks fulltrúaráðs hvers lífeyrissjóðs þar sem eiga sæti til jafns fulltrúar þeirra stéttarfélaga sem aðild eiga að viðkomandi sjóði og fulltrúar atvinnurekenda. Hlutverk fulltrúaráðsins er m.a. að staðfesta tilnefningar til stjórnar lífeyrissjóðs og að hafa eftirlit og aðhald með störfum stjórnarinnar. Stjórn lífeyrissjóðs skal svo skipuð fulltrúum stéttarfélaga og atvinnurekenda að jöfnu og skal stjórnarmaður sitja að hámarki í 8 ár samfellt. Við val í stjórn skulu báðir aðilar starfrækja uppstillinganefndir sem auglýsa eftir hæfum einstaklingum til stjórnarstarfa og velja þá sem taldir eru hæfastir til staðfestingar hjá sínum fulltrúum í fulltrúaráðum lífeyrissjóða.

Þessu samkomulagi er svo fylgt eftir með stofnun sérstaks samráðshóps samningsaðila sem fjalla skal um lífeyrismál og hittist a.m.k. tvisvar á ári þar sem ræða skal stöðu og þróun lífeyriskerfisins.