Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
rvk-1.jpg

Efnahagsyfirlit - 10.12.2015

Efnahagsyfirlit VR – hver er staðan og hvað er framundan?

Kaupmáttarvísitala VR hækkaði um 4,5% í september 2015 borið saman við sama tímabil 2014. Litlar vísbendingar eru um að þróun kaupmáttar sé úr takti við almenna efnahagsþróun. Þetta kemur fram í nýjasta Efnahagsyfirliti VR. Í yfirlitinu fjallar hagfræðingur VR um helstu lykiltölur íslensks efnahagslífs og spár greiningaraðila um þróunina næstu misseri.

Nokkur kraftur er í íslensku efnahagslífi en landsframleiðsla jókst um 4,5% á fyrstu 9 mánuðum ársins 2015 samanborið við fyrstu 9 mánuði ársins 2014. Hagvöxtur á næstu þremur árum verður um og yfir 3% á ári gangi spár greiningaraðila eftir. Verðbólga í nóvember mældist 2% og var minni en gert var ráð fyrir og sem fyrr hún knúin áfram af hækkun húsnæðisverðs. Án húsnæðis mældist verðbólgan 0,3%.

Atvinnuleysi var 3,8% í október 2015 samanborið við 5% í október 2014. Hlutfall starfandi mældist 78% og hækkar aðeins um 0,2%-stig m.v. sama tímabil í fyrra. Í október 2015 hækkaði íbúðarhúsnæði um 10% m.v. sama tíma í fyrra. Spár gera ráð fyrir um 30% hækkun húsnæðisverðs fram til ársins 2018 sem yrði 4,6% hækkun umfram laun m.v. spá Landsbankans um launaþróun. Væntingar einstaklinga hafa tekið vel við sér og eru nálægt meðaltali áranna fyrir hrun. Tryggingagjaldið er, í samanburði við þróun atvinnuleysis, of hátt og innistæða er fyrir lækkun þess.