Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul.

Efnahagsyfirlit - 19.09.2017

Efnahagsyfirlit VR - Launahækkanir hafa verið í takt við verðmætasköpun

Laun á Íslandi hafa hækkað umtalsvert síðustu ár - sumir telja að þau hafi hækkað of mikið og benda máli sínu til stuðnings á samanburð við launahækkanir erlendis. Slíkur samanburður verður hins vegar að taka tillit til hagvaxtar sem hefur verið mun meiri á Íslandi en annars staðar. Um þetta er fjallað í nýjasta Efnahagsyfirliti VR sem gefið er út í tengslum við mánaðarlega fundi stjórnar félagsins.

Nú þegar endurskoðun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði er á næsta leiti er hafin umræða um launahækkanir og þol atvinnulífsins í því samhengi. Sumir halda því fram að laun hafi þegar hækkað umfram það sem atvinnulífið þolir og launahækkanir á næsta ári verði að taka mið af því.

Laun og launategnd gjöld sem hlutfall af landsframleiðslu

Í samanburði launa á Íslandi og erlendis verður hins vegar að skoða þróunina með tilliti til hagvaxtar og samsetningar atvinnulífsins, segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og bendir á að laun á Íslandi hafi hækkað í takt við verðmætasköpun undanfarinna ára. Hér hafi hagvöxtur einfaldlega verið meiri en í nágrannalöndum okkar og það sé sanngjarnt að allir fái notið þegar vel gengur - ávinningnum eigi að skipta milli launafólks og atvinnurekenda. Hlutfall launa og landsframleiðslu sé nú í samræmi við langtímameðaltal og svo hafi verið frá árinu 2012, hvað sem líður samanburði við útlönd.