Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
rvk-1.jpg

Efnahagsyfirlit - 21.09.2016

Efnahagsyfirlit VR - Færri skipta um vinnustað nú en í fyrri uppsveiflum

Þegar illa árar í efnahagslífinu skipta færri um vinnu en þegar vel árar. Ástæðurnar geta verið margvíslegar, en ljóst er að í uppsveiflu er meira um góð atvinnutækifæri en þegar kreppir að. Samband á milli hagsveiflunnar og vinnuskipta hefur lengst af verið nokkuð sterkt, allavega fram að kreppunni 2009. Frá 2010 hafa vinnuskipti félagsmanna VR hins vegar ekki verið í samræmi við þá uppsveiflu sem hafin er. Þetta sést meðal annars á því að starfsaldur félagsmanna á sama vinnustað hefur lengst. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýjasta Efnahagsyfirliti VR.

 

Færri fá greidda fjárhagsaðstoð en áður

Í Efnahagsyfirlitinu er fjallað um nokkrar lykiltölur vinnumarkaðarins en ritið er gefið út í tengslum við fundi stjórnar félagsins. Í septembertölublaði ritsins kemur fram að færri hafi sótt um fjárhagsaðstoð árið 2015 en árin á undan. Það er í takt við minna atvinnuleysi nú en seinustu ár. Hins vegar hefur þeim sem sækja um fjárhagsaðstoð ekki fækkað jafn mikið og atvinnuleysi hefur lækkað. Fjöldinn sem fær greidda fjárhagsaðstoð virðist frekar vera háður því sem kalla má falið atvinnuleysi en það eru þeir sem eru í hlutastarfi og vilja vinna meira, fólk sem vill vinna en er ekki að leita og fólk sem er að leita en ekki tilbúið að byrja að vinna innan tveggja vikna.

 

Ísland dýrt í samanburði við önnur Evrópulönd

Ísland hefur lengi verið eitt af dýrari löndum innan Evrópu en í samantekt Hagstofu Evrópusambandsins kemur fram að verðlag á Íslandi sé 25% hærra en meðaltal Evrópulandanna. Í fimm af þeim tólf flokkum sem bornir eru þar saman er Ísland dýrast. Ísland er aðeins ódýrara en meðaltal Evrópu í einum flokki og er það hiti og rafmagn. Afnám tolla og vörugjalda hefur þó skilað lægra vöruverði en sökum þess hve mikið hærra verðlag var hér á landi árið 2015, t.d. á raftækjum, er líklegt að verðlag á Íslandi sé enn nokkuð yfir meðaltali Evrópu. Þá eru vextir á Íslandi einnig töluvert hærri en hjá nágrannaþjóðunum en slíkt þýðir ekki að kostnaður vegna húsnæðis sé hærri hér en hjá þeim löndum sem við berum okkur saman við.

 

Landsframleiðsla á mann enn lægri en 2007

Hagvöxtur hefur verið nokkuð mikill undanfarin ár á Íslandi miðað við hin Norðurlöndin. Sá mikli hagvöxtur er þó ekki það mikill að þegar tekið hefur verið tillit til aukins mannfjölda var landsframleiðsla á mann árið 2015 undir því sem hún var 2007. Gangi spár eftir um hagvöxt og aukningu mannfjölda árið 2016 eru þó allar líkur á því að landsframleiðsla á mann verði meiri árið 2016 en árið 2007. Íbúðafjárfesting jókst nokkuð á fyrri helmingi ársins 2016 samanborið við 2015 en þarf þó að aukast töluvert í viðbót til að sporna gegn mikilli hækkun fasteignaverðs.

 

Erlendum ferðamönnum hefur fjölgað mikið og líkur á að svo verði áfram

Erlendum ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað mjög mikið seinustu árin og haldi áfram sem horfir verður heildarfjöldi ferðamanna tæplega 1,7 milljónir árið 2016. Gögn Alþjóðabankans um fjölda erlendra ferðamanna benda ekki til þess að mikil fækkun erlendra ferðamann fylgi í kjölfarið eftir að þeim hafi fjölgað mikið á stuttum tíma. Þvert á móti sýna gögnin að þar sem fjöldi ferðamanna hefur vaxið um 80% eða meira á 4 árum hefur fjölgunin haldið áfram næstu árin.

 

Sjá Efnahagsyfirlit VR september 2016