Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
rvk-2.jpg

Efnahagsyfirlit - 10.06.2016

Miklum hagvexti spáð, landsframleiðsla gæti orðið hærri en fyrir hrun

Samkvæmt spám fimm greiningaraðila verður hagvöxtur á mann hér á landi 3,8% á þessu ári og gangi spárnar eftir verður landsframleiðsla á mann árið 2016 hærri en árið 2007. Hagvöxtur eftir hrun er mun heilbrigðari en fyrir hrun þegar hann var byggður að miklu leyti á aukinni skuldsetningu. Enn sjást mjög veik merki þess að skuldsetning heimila og fyrirtækja sé farin að aukast. Þá spá greiningaraðilar aukinni verðbólgu en nokkur munur er á spám þeirra. Flestir spá svipaðri verðbólgu árið 2016, eða 2%, en árið 2017 er nokkur munur á spám. Talsverð óvissa fylgir spám til langs tíma og afnám hafta bætir enn í þá óvissu. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýjasta Efnahagsyfirliti VR.

Kaupmáttur eykst meira en einkaneysla á 1. ársfjórðungi 2016

Hagvöxtur á 1. ársfjórðungi var knúinn áfram af fjárfestingu og einkaneyslu. Við því var að búast að einkaneysla myndi hafa mikil áhrif á hagvöxt en kaupmáttur hefur aukist talsvert seinasta árið, á 1. ársfjórðungi 2016 jókst kaupmáttur talsvert meira en einkaneysla. Það má því búast við því að einkaneysla aukist eitthvað á næstunni nema launamenn noti launahækkanir til að grynnka á skuldum eða auka sparnað.

Störfum heldur áfram að fjölga en vinnutími óbreyttur frá hruni

Hlutfall starfandi er nú jafn hátt og í janúar 2006 og atvinnuleysi komið á svipaðar slóðir og í upphafi árs 2003. Hlutfall þeirra sem hafa vinnu hefur hækkað nær stanslaust frá upphafi árs 2013 og fátt sem bendir til þess að það breytist á næstunni. Í kjölfar hrunsins fækkaði vinnustundum að meðaltali um 5% en mörg fyrirtæki settu á yfirvinnubann eða skertu vinnutíma á annan hátt. Litlar sem engar breytingar hafa verið á vinnutíma frá hruni og engar vísbendingar um að hann sé að lengjast. Ástæðan gæti verið sú að enn sé yfirvinnubann innan fyrirtækja eða að um sé að ræða breytt viðhorf til vinnuvikunnar og launamenn kjósi að vinna minna en áður.

Verðbólga enn lág en spár gera ráð fyrir aukningu næstu árin

Verðbólga mælist enn lág á helstu mælikvarða verðlags. Þannig eru enn engin skýr merki um að fyrirtæki hafi velt stórum hluta launahækkana seinasta árið út í verðlag. Líkt og var árið 2011 hefur hrávöruverð haft mikil áhrif á þróun verðlags undanfarið ár. Vísbendingar eru um að hrávöruverð sé aftur farið að hækka en slíkt mun hafa bein áhrif á verðbólgu á Íslandi. Spár um aukna verðbólgu á næstu misserum gætu að einhverju leyti verið of svartsýnar þar sem stór hluti umsaminna launahækkana er þegar kominn til vegna framhlaðinna kjarasamninga.

Bjartsýni eykst meðal almennings og stjórnenda fyrirtækja

Væntingavísitala Gallup nálgast hratt hámarkið fyrir hrun en vísitalan mælir tiltrú og væntingar fólks til efnahagslífsins, atvinnuástandsins og heildartekna heimilisins. Bjartsýni hefur aukist á sama tíma og störfum hefur fjölgað mikið og kaupmáttur fólks aukist. Sömu sögu er að segja um viðhorf stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins og telja þeir stöðu atvinnulífsins góða en vísitala efnahagslífsins hefur aðeins í tvö skipti mælst hærri af síðustu 49 skiptum.

Sjá Efnahagsyfirlit VR júní 2016