Jónas Yngvi Ásgrímsson

Fæðingardagur og -ár
17. febrúar 1963

Félagssvæði
Suðurland

Vinnustaður, starf og menntun
Abbey Road ehf., ráðgjafi, bókari og viðskiptafræðingur.

Netfang
jonasy@simnet.is 

Facebook
jyasgrimsson
jonas.y.asgrimsson

Horfa á kynningarmyndband hér.


Reynsla af félagsstörfum

Ég heiti Jónas Yngvi Ásgrímsson og býð mig fram til stjórnarsetu í stjórn VR. Ég er 60 ára útskrifaður frá Samvinnuskólanum á Bifröst og síðar úr viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri. Ég starfa við ráðgjöf og bókhald hjá Abbey Road ehf. og hef verið þar frá 2022. Ég er búsettur í Skeiða og Gnúpverjahreppi í Árnessýslu. Kona mín er Jóhanna Lilja Arnardóttir, skólastjóri í Flúðaskóla.
Ég tók sæti í stjórn VR á Suðurlandi árið 2017 og á sama tíma tók ég sæti í trúnaðarráði VR. Eins er ég í fulltrúaráði Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna. Árið 2020 var ég síðan kjörin í stjórn VR. Félagssvæði mitt er Suðurland. Sem landsbyggðamaður hef ég talað fyrir áherslum VR félaga landsbyggðarinnar.

Ég hef sem stjórnarmaður VR unnið í ýmsum nefndum. Þær eru helstar starfsmenntanefnd, kjaramálanefnd og húsnæðisnefnd. Á vegum þessara nefnda hafa mörg stór mál verið leidd til lykta. Starfsmenntamál eru mál málanna hjá mér en ég vil sjá möguleika fólks til áframhaldandi menntunar verða að veruleika. Þarna skiptir máli að fá í kjarasamninga aukna heimild starfsfólks til að geta sótt sér viðbótarmenntun í vinnutíma. Á tímum fjórðu iðbyltingarinnar er þörfin mikil og þá sérstaklega fyrir þá sem ekki hafa lokið mikilli formlegri menntun.

Húsnæðisnefnd VR hefur hafið byggingu á hagkvæmu leiguhúsnæði fyrir félagsfólk. Áætlanir gera ráð fyrir allt að 23% lægri leigu en á almennum markaði. Ekki er að efa að þarna er um að ræða umtalsverða kjarabót fyrir þá sem þarna koma til með að leigja. Í framtíðinni verður væntanlega farið að byggja fleiri íbúðir eftir sama formi.


Helstu áherslur

Meðal þeirra mála sem ég legg áherslu á eru bætt kjör þeirra sem eru lægst eru launaðir. Lenging orlofs í 30 daga fyrir alla og stytting vinnuvikunnar eru kjaramál sem þarf að halda áfram að vinna í. Áframhaldandi þróun starfsnáms er líka nauðsynlegur hluti af kjaramálum framtíðarinnar, sérstaklega ef tekið er tillit til fjórðu iðnbyltingarinnar. Mesta kjarabótin er þó að ná niður verðbólgu og vöxtum og með skynsömum kjarasamningum þar sem allir aðilar leggja sitt af mörkum er hægt að ná þeirri kjarabót. Ekki er lengur hægt að leggja vinnuna einungis á starfsfólk heldur verða SA að vinna með líka.

Ég hef mikinn áhuga á samfélagsmálum og að vinna þannig að góðum málefnum. Þannig er ég virkur í Lions og hef verið Umdæmisstjóri þar og starfa í landsstjórn Lions. Lionshreyfingin er fjöldahreyfing fólks sem vill bæta samfélagið sem við búum í. Eins er ég félagi í Oddfellow stúku.

Undanfarin ár hafa verið lærdómsrík. Að starfa í stjórn stéttarfélags er mikil vinna og gefandi. Ákvarðanir sem teknar eru í stjórninni koma til með að hafa áhrif á líf margra. Því þurfum við sem þar störfum að vinna af ábyrgð og vanda verk okkar. Samvinna og samhyggð eru kjörorð mín í störfum fyrir VR.

Ég óska eftir því að þú, VR félagi góður, greiðir mér atkvæði þitt og leyfir mér þannig að vinna áfram fyrir þig.