Þekkir þú úrræðin?

Síðustu ár hefur vitund um kulnun farið vaxandi og úrræði eru fleiri en þau hafa verið.
Í alvarlegum tilfellum er ráðlegt að leita til fagfólks, sálfræðinga, geðlækna eða annarra meðferðaraðila. En það er mikilvægt að hafa vaðið fyrir neðan sig og geðheilsan er okkur öllum mikilvæg. Sjálfsmeðvitund um álagsþætti og góð færni í streituvörnum er frábær forvörn og geðheilsuefling.

Forvarnir

Best er að vinna gegn streitu með forvörnum svo hún komist ekki á alvarlegt stig. Það er gert með forvarnafræðslu. Þá er kennd aukin meðvitund um streituvaldana og veitt þekking um hættumerkin, þ.e. fyrstu einkenni kulnunar og sjúklegrar streitu.

Við streituvarnir er sérstaklega mikilvægt að gæta að nægilegri andlegri og líkamlegri slökun og hæfilegri hvíld.

Hreyfing

Ekki er ráðlegt að hætta í ræktinni ef álag er mikið en skynsamlegt getur verið að draga úr þyngdum og stytta æfingarnar. Léttari þjálfun eins og ganga og sund henta oft mjög vel þegar álag er mikið. Mikilvægt er að hreyfing sé regluleg þrisvar til fjórum sinnum í viku.

Matarræði

Matarræði skiptir miklu máli varðandi streitu og álag. Hollt fæði og reglulegir matartímar gefa góða næringu og besta líðan. Margir hafa sterka tilhneigingu til að borða óreglulega og auka sykurnotkun þegar álagið vex.

Meðferð streitu

Ef kulnun er komin á alvarlegt stig eða sjúkleg streita hefur verið greind er mikilvægt að leita sér ráðgjafar og lækninga.

Læknar, sálfræðingar og margar aðrar heilbrigðisstéttir veita ráðgjöf og meðferð og geðlæknar og margir sálfræðingar hafa sérþekkingu á greiningu og meðferð sjúklegrar streitu og annarra streitutengdra sjúkdóma.