VR blaðið

14.05.2012

3. tbl. VR blaðsins 2012

Niðurstöður í könnun VR á Fyrirtæki ársins 2012 eru helsta umfjöllunarefni 3. tbl. VR blaðsins 2012. Í blaðinu eru birtir listar yfir stöðu fyrirtækja, umfjöllun um sigurvegara og hástökkvara og aðrar helstar niðurstöður. Þá er einnig umfjöllun um STARF, nýja þjónustu á sviði vinnumiðlunar og ráðgjafar VR fyrir atvinnuleitandi félagsmenn, farið yfir orlofsréttindi og varaformaður veltir fyrir sér 1. maí. Fjallað er um réttindi unglinga á vinnumarkaði og sumarstarfshorfur ungs fólks og jafnréttissáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í leiðara fjallar formaðurinn um könnun VR á Fyrirtæki ársins undir yfirskriftinni Að skara framúr.

18.04.2012

2. tbl. VR blaðsins 2012

Í þessu tölublaði VR blaðsins er áhersla lögð á orlofsmálin enda sumar á næsta leiti. Félagið tekur á leigu nokkur ný orlofshús fyrir félagsmenn sína eins og iðulega á sumrin og eru þau kynnt í þessu blaði ásamt húsum í eigu félagsins. Í sumar opnar nýtt tjaldsvæði í orlofshúsabyggð VR í Miðhúsaskógi en þar er mjög góð aðstaða fyrir tjöld, fellihýsi og tjaldvagna sem og pláss fyrir 40 – 50 ferðavagna og bíla með aðgangi að rafmagni á hagstæðu verði. Margt fleira tengt orlofsmálum er í blaðinu, s.s. ráðleggingar frá FÍB um umhverfisvænan akstur, hugmyndir að bókum í fríið o.fl. Í blaðinu er jafnframt farið yfir niðurstöður kosninga í mars, ný stjórn kynnt og stiklað á stóru hvað þjónustu VR varðar. Formaður bæði fer yfir farinn veg í leiðara og hugar að sumri framundan.

29.02.2012

1. tbl. VR blaðsins 2012

1. tbl. VR blaðsins 2012 er helgað kosningum til stjórnar 2012. Frambjóðendur kynna áherslur sínar og fjallað er um fyrirkomulag kosninganna. Ellefu einstaklingar bjóða sig fram til sjö sæta í stjórn fyrir kjörtímabilið 2012 – 2014. Í blaðinu er ítarleg umfjöllun um Sjúkrasjóð og VR varasjóð en sjóðirnir eru tilkomnir vegna kjarabaráttu félagsins í gegnum árin. Fjallað er um nýjan samning sem felur í sér aukna þjónustu við atvinnuleitendur VR, fjallað um námskeið fyrir eldri félagsmenn sem slegið hefur í gegn, þunglyndi á vinnustað og margt fleira. Í leiðara fjallar formaður um stöðu lántakenda í því umróti sem nú er í samfélaginu.

09.12.2011

6. tbl. VR blaðsins 2011

Í 6. tbl. VR blaðsins 2011 er fjallað um hádegisfyrirlestra á vorönn en VR býður félagsmönnum sínum á fyrirlestra reglulega um allt milli himins og jarðar, fjallað er um stöðu unga fólksins í kreppunni og stöðu kjarasamninga. Í blaðinu er grein um atvinnufærni, jólahald í Sviss og Serbíu, birtur pistill um boðskap jólanna og gómsætar uppskriftir af meðlæti með jólamatnum. Þá er áhugaverð grein um áhrif fjárlagafrumvarpsins á hag launafólks og birt grein undir heitinu Rjúfum þögnina sem fjallar um heimilisofbeldi. Í leiðara fjallar formaður um stöðu atvinnu- og efnahagsmála.

08.11.2011

5. tbl. VR blaðsins 2011

Í 5. tbl. VR blaðsins 2011 er áhersla á umfjöllun um málefni eldri félagsmanna. Farið er yfir réttindi þeirra og hvað ber að hafa í huga þegar kemur að starfslokum, námskeið fyrir eldri félagsmenn kynnt, fjallað um samskipti kynslóða á vinnustað og birt grein um annríkið í iðjuleysinu svo eitthvað sé nefnt. Leiðari formanns fjallar einnig um þetta málefni undir heitinu Að hefjast handa. Þá er í blaðinu umfjöllun um jafnréttismál, t.d. um stöðu fæðingarorlofssjóðs, réttindi í fæðingarorlofi og hvað ber að hafa í huga þegar mætt er til vinnu eftir barnsburð. Einnig er áframhaldandi umræða um launamun kynjanna samkvæmt niðurstöðum launakönnunar VR 2011. Í blaðinu er birt áhugaverð grein um þjónandi forystu, farið yfir réttindi verslunarmanna í jólavertíðinni og margt fleira.

19.09.2011

4. tbl. VR blaðsins 2011

Í 4. tbl. VR blaðsins 2011 er áherslan lögð á umfjöllun um niðurstöður launakönnunar VR 2011. Þær sýna að laun hækka á milli ára en að launamunur kynjanna stendur í stað, þriðja árið í röð. Í blaðinu er einnig fjallað um nýja auglýsingaherferð VR um jafnrétti sem hrint var af stað í sama tíma og launakönnunin var birt. Auglýsingaherferðin er hluti af stærra átaki VR gegn kynbundnum launamun. Í blaðinu eru einnig birt góð ráð fyrir þá sem nú undirbúa sig fyrir árlegt launaviðtal. Þá er fjallað um hádegisfyrirlestra VR þetta haustið, birt umfjöllun um sveigjanleika í fyrirtækjum, fjallað um opið rými á vinnustöðum og áhrif þess samkvæmt nýrri danskri könnun o.m.fl. Í leiðara fjallar formaður um launamun kynjanna undir fyrirsögninni Eru konur aðeins 90% menn?

17.05.2011

3. tbl. VR blaðsins 2011

Þriðja tölublað VR blaðsins þetta árið er að hluta helgað niðurstöðum í könnun VR á Fyrirtæki ársins 2011. Í könnuninni urðu Íslenska gámafélagið og Vinnuföt hlutskörpust og fengu titilinn fyrirtæki ársins. Í blaðinu er einnig fjallað um helstu atriði nýs kjarasamnings við SA, kynnt ný stjórn félagsins sem tók við á síðasta aðalfundi og jafnframt stiklað á stóru á niðurstöðum fundarins. Í blaðinu er einnig birt viðtal við nýkjörinn formann, Stefán Einar Stefánsson, fjallað um sögu verkfalla hjá VR og minnt á orlofsréttindin. Leiðarinn að þessu sinni fjallar um VR á tímamótum.

10.03.2011

2. tbl. VR blaðsins 2011

2. tbl. VR blaðsins árið 2011 er helgað kosningum til formanns og stjórnar dagana 16. til 30. mars. Í blaðinu er fjallað ítarlega um frambjóðendur, sagt frá reynslu og áherslum þeirra auk þess sem birtar eru greinar frambjóðenda til formanns. Kosið er eftir 20. gr. laga VR en breyting á þeirri grein var samþykkt á framhaldsaðalfundi í janúar sl. Hér má sjá nánari upplýsingar um tilhögun kosninganna.

Leiðrétting: Í VR blaðinu sem sent var til áskrifenda birtist rangur texti í umfjöllun um áherslur Ástu Rutar Jónasdóttur stjórnarframbjóðanda. Ásta Rut er beðin velvirðingar á þessum mistökum sem hafa verið leiðrétt í því eintaki sem birt er hér á vef VR.

09.02.2011

1. tbl. VR blaðsins 2011

Í 1. tbl. VR blaðsins 2011 er fjallað um breytingar sem samþykktar voru á 20. gr. laga VR á framhaldsaðalfundi í janúar. Fjallað er um áfanga í langri sögu félagsins en VR varð 120 ára þann 27. Janúar 2011. Skýrt er frá niðurstöðum stjórnendakönnunar VR en þetta er í þriðja skipti sem VR stendur fyrir sérstakri könnun meðal stjórnenda á íslenskum vinnumarkaði. Fjallað er um hádegisfyrirlestra og námskeið fyrir félagsmenn og atvinnuleitendur, birtar upplýsingar um hvernig hinn dæmigerði VR félagsmaður er og birt grein Gylfa Dalmann, dósents við HÍ, um svokallaða óttastjórnun. Þá er birt áhugaverð grein um einelti á vinnustað, birtir dómar sem fallið hafa í málum félagsmanna og margt annað. Í leiðara fjallar formaður um stöðu félagsins í dag og verkefnin framundan.

22.12.2010

6. tbl. VR blaðsins 2010

Á Í 6. tbl. VR blaðsins 2010 er jólastemmning enda er þetta síðasta blað ársins. Fjallað er um jól að fornum sið, birtar uppskriftir að jólagóðgæti og nokkrum hugmyndum að útiskreytingum. Fjallað er um námskeið sem atvinnuleitendum í félaginu standa til boða á nýju ári sem og hádegisfyrirlestra fyrir félagsmenn en þeir njóta mikilla vinsælda. Skýrt er frá fyrstu niðurstöðum stjórnendakönnunar en þetta er þriðja skiptið sem VR stendur fyrir sérstakri könnun meðal stjórnenda á íslenskum vinnumarkaði. Fjallað er um kjarasamninga og kröfugerð en sem kunnugt er eru samningar VR við viðsemjendur lausir. Nokkrir einstaklingar skýra okkur frá vendipunktum tilveru sinnar, fjallað er um vinnustaðaskírteini og margt fleira. Í leiðara lítur formaður um öxl, rifjar um síðustu ár, og hugar svo að framtíðinni.