Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
Vr Utsynismyndir 11

Almennar fréttir - 27.05.2020

Laun hækka um 3,7% milli ára

Heildarlaun félagsmanna í VR voru 636 þúsund krónur fyrir fullt starf í febrúar síðastliðnum miðað við miðgildi launa. Miðgildi grunnlauna var 628 þúsund í sama mánuði. Miðgildi heildarlauna hækkaði um 3,7% milli febrúar árið 2019 og febrúar í ár. Miðgildi grunnlauna hækkaði ívið meira á sama tímabili eða um 4,3%. Þetta sýna niðurstöður launarannsóknar VR.

Launarannsókn VR byggir á reiknivélinni Mín laun á Mínum síðum á vef félagsins. Hún byggir á greiddum félagsgjöldum og skráningum félagsmanna á starfsheiti og vinnutíma. Grunnlaun eru reiknuð á grundvelli heildarlauna og upplýsinga um fjölda yfirvinnustunda sem félagsmenn skrá á Mínum síðum, þar sem við á.

Athugið að launahækkun samkvæmt kjarasamningi þann 1. apríl síðastliðinn er ekki inni í þeim launatölum sem hér eru birtar. Sjá nánar um kjarasamningsbundnar launahækkanir félagsmanna VR.

VR leggur nú áherslu á að fjalla um miðgildi launa á milli ára í stað meðaltals í umfjöllun um niðurstöður launarannsóknar félagsins. Heildarlaun að meðaltali voru nokkuð hærri en miðgildið eða 694 þúsund í febrúar 2020. Meðaltal grunnlauna var einnig nokkuð hærra en miðgildi eða 682 þúsund. Hækkun meðaltals launa er svipuð og hækkun miðgildis launa.

Launarannsókn fyrir febrúar 2020 byggir á skráningum rúmlega ellefu þúsund félagsmanna eða um þriðjungi félagsmanna í þeim mánuði. Launarannsókn VR sýnir grunn- og heildarlaun eftir starfsstéttum, óháð atvinnugreinum, eftir atvinnugreinum sem og laun eftir starfsstéttum innan atvinnugreina. Laun eru birt ef tíu eða fleiri félagsmenn hafa skráð viðkomandi starfsheiti í launareiknivélina á Mínum síðum.

Heildarlaun og grunnlaun fyrir allan hópinn eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og atvinnugreinar til að endurspegla samsetningu félagsins. Vigtun tekur til meðallauna, miðgildis launa og fjórðungsmarka og má sjá þær launatölur í launatöflunni Meðallaun eftir starfsheitum, óháð atvinnugrein. Aðrar launatölur eru óvigtaðar, hvort sem um er að ræða laun innan atvinnugreina eða óháð atvinnugrein.

Í ár var gerð breyting á aðferðarfræði launarannsóknar og framsetningu niðurstaðna. Nú er einungis tekið mið af launum félagsmanna sem vinna a.m.k. fullt starf en áður voru laun fyrir lægra starfshlutfall uppreiknuð upp í fullt starf og tekin með í útreikningum. Til að skoða þróun heildarlauna milli áranna 2019 og 2020 voru laun fyrir febrúar árið 2019 endurreiknuð með tilliti til breyttrar aðferðarfræði. Laun eru birt eftir starfsheitum samkvæmt starfsheitaflokkun úr launakönnun VR. Flokkun atvinnugreina byggir á atvinnugreinaflokkun ÍSAT, en er aðlöguð að þörfum VR og er í samræmi við þá flokkun sem tíðkast hefur í launakönnun VR undanfarin ár. Laun hærri en fimmföld miðgildislaun eru ekki tekin með í reiknuðum launum í töflum.