Gabríel Benjamin

Fæðingardagur og -ár
19. febrúar 1987

Félagssvæði
Reykjavík og nágrenni

Vinnustaður, starf og menntun
Ég vinn sem neyðarvörður hjá Neyðarlínunni og starfaði áður sem kjaramálafulltrúi hjá stéttarfélaginu Eflingu. Áður var ég blaðamaður hjá Stundinni og The Reykjavík Grapevine þar sem ég fjallaði ítarlega um verkalýðsmál og réttindabrot á vinnumarkaði. Ég er menntaður í heimspeki frá Háskóla Íslands og Edinborgarháskóla, með sérstaka áherslu á siðfræði og stjórnmálaheimspeki.

Netfang
tgabrielbenjamin@gmail.com

Facebook
Gabríel Benjamin

Horfa á kynningarmyndband hér. 


Reynsla af félagsstörfum

Síðastliðið ár hef ég verið varamaður í stjórn VR. Ég er formaður jafnréttis- og mannréttindanefndar VR og hef leitt mótun herferðar sem fer senn af stað til að auka virðingu og umburðarlyndi gagnvart erlendu félagsfólki og hinsegin fólki á vinnumarkaði. Ég sit einnig í jafnréttisnefnd ASÍ og er varamaður í nefnd um brotastarfsemi á vinnumarkaði.

Ég er trúnaðarmaður hjá Neyðarlínunni og var áður trúnaðarmaður á skrifstofu Eflingar. Í starfinu hjá Eflingu hafði ég aðstoðað fjölda fólks í gegnum erfið mál og hjálpað þeim að leita réttar síns eftir ofbeldi og réttindabrot af hendi atvinnurekenda. Ég játa samt að ég skildi ekki fyllilega hvað í því felst að vera þolandi í slíkum málum fyrr en ég lifði það sjálfur þegar öllu starfsfólki Eflingar var sagt upp störfum í fordæmalausri hópuppsögn. Verkalýðshreyfingin reyndist máttlítil gagnvart brotum innan sinna eigin raða en með stuðningi skrifstofu VR fór ég með mál mitt til Félagsdóms sem dæmdi uppsögn mína ólöglega með fordæmisgefandi úrskurði.


Helstu áherslur

Stjórnarkosningar fara fram í ár á tíma ólgu og óvissu. Mínar helstu áherslur lúta að almennum lífsgæðum félagsfólks VR. Ég tel mikilvægt að standa vörð um og bæta kaupmátt okkar fólks en líka að beita krafti félagsins til að tryggja að kjarabætur séu ekki samstundis teknar í burtu með óstjórn í efnahagsmálum. Mér er sérstaklega umhugað um stöðu erlends félagsfólks VR en mörg þeirra standa höllum fæti. Í nýrri skýrslu ASÍ kemur fram að af launakröfum upp á 250 milljónir árið 2022 var helmingur gerður fyrir erlent félagsfólks þrátt fyrir að það sé aðeins 16,8% af mannfjölda landsins. Ég vil vinna bót á þessu meini með frekari áherslu á vinnustaðaeftirlit VR og ASÍ og með því að tryggja févíti fyrir launaþjófnað þannig að skipulögð brot gegn vinnandi fólki hafi afleiðingar. Ég hef einnig unnið að því að móta tillögur um svartan lista atvinnurekenda sem verða uppvísir að skipulögðum kjarabrotum eða launaþjófnaði. Þannig vil ég upplýsa félagsfólk og samfélagið um þau fyrirtæki sem fara á svig við siðferðislegar og lagalegar skyldur sínar.


Grein frá frambjóðanda

Ögurstund verkalýðshreyfingarinnar

Við í verkalýðshreyfingunni stöndum á ögurstundu. Stýrivextir standa í hæstu hæðum, erfiðara er fyrir ungt fólk að eignast húsnæði, og búið er að svelta tilfærslukerfi þannig að þau létti ekki byrðarnar á þeim sem þurfa á þeim að halda. Á meðan að verðbólga minnkar léttilega eru enn mörg hættumerki sýnileg.

Hugmyndafræðin á bak við nýja kjarasamninga er að virka sem jöfnunartól. Inni í þeirri hugmyndafræði er að endurskoða og endurfjármagna barna­bæt­ur, hús­næðis­bæt­ur, leigu­bæt­ur og vaxta­bæt­ur, og að baktryggja launafólk gegn efnahagssveiflum. Mörg heimili hafa nú þegar þurft að skera niður útgjöld og breyta lánum, og eru komin að þolmörkum. Launafólk er í hættu á því að verða verðlagt úr eigin vinnu og heimili vegna ótraustrar efnahagsstjórnunar og rýrnun kaupmáttar.

Ný stjórn mun þurfa að vera í vígaham frá fyrsta degi við að tryggja kjarasamning ef hann er ekki enn kominn, eða til að fylgja honum eftir og sjá til þess að kostnaður á nýju tilfærslukerfi verði hvorki velt á launafólkið sjálft eða glatist í skerðingum. Ég er tilbúinn í það verkefni.

Tæklum kerfislæg vandamál

Síðastliðið ár hef ég verið varamaður í stjórn VR, en ég hef tekið virkan þátt í nefndarstörfum stjórnar. Ég var kosinn formaður jafnréttis- og mannréttindanefndar þar sem ég hef hafist handa við herferð sem fer senn af stað til að auka virðingu og umburðarlyndi gagnvart erlendu félagsfólki og hinsegin fólki á vinnumarkaði. Því miður er vel þekkt að minnihlutahópar verða gjarnan fyrir aukinni mismunun og öráreiti á vinnustaðnum, og eru útsettari fyrir ofbeldi og einelti. Því tel ég mikilvægt að varpa ljósi á þennan vanda og fá félagsfólk okkar með okkur í liði við að tækla hann.

Í jafnréttisnefnd ASÍ hef ég beitt mér fyrir því að endurmeta störf innan kvennastétta, stutt Kvennaverkfallið og Kvennaráðstefnu ASÍ. Í nefnd um brotastarfsemi á vinnumarkaði ASÍ, þar sem ég er varamaður, hef ég talað fyrir eflingu vinnustaðaeftirlits stéttarfélaganna og ráðum til að bæta úrræði fyrir félagsfólk okkar sem lendir í verstu kjarabrotunum.

Ég hef einnig reynt að vinna að þörfum endurbótum á kerfislægu vandamáli verkalýðshreyfingarinnar. Eins og staðan er í dag fylgja því afleiðingar að taka eignir og fé annara ófrjálsum höndum, nema þá ef þær eignir eru laun frá atvinnurekanda. Þessi vandi hefur verið þekktur innan verkalýðshreyfingarinnar, en starfsfólk kjaramálasviða standa frammi fyrir úrræðaleysi gagnvart síbrotamönnum sem greiða starfsfólki sínu ítrekað skert laun, eða þá engin laun.

Til er fjöldi fyrirtækja hér á landi sem eru rekin á nýrri kennitölu með reglulegu millibili og lætur ábyrgðasjóð launa greiða vangoldin laun starfsfólks síns. Þeir atvinnurekendur hafa hirt gróðann en láta almenning borga kostnaðinn, oft án þess að skipta um nafn á fyrirtækinu. Annar hópur atvinnurekanda kemst ítrekað upp með að greiða starfsfólki sínu ekki laun, eða skerða laun verulega með torskildum og óraunverulegum kostnaði. Þetta rekstrarform virkar því gjarnan leitar aðeins hluti þolanda til stéttarfélags síns, og félögin hafa engar heimildir til þess að ráðast í launakröfur að eigin forræði. Þegar launakröfur myndast fylgja þeim engar skaðabætur og þarf atvinnurekandi því aðeins að greiða vangoldin laun. Því getur slíkur atvinnurekandi auðveldlega hagnast á öllu því starfsfólki sem sækist ekki eftir rétti sínum.


 

 


Búið er að leggja til margar hugmyndir í þessum efnum, en ég tel að þrjár samhliða nálganir geti minnkað þetta samfélagslega mein. Í fyrsta lagi þurfa VR og ASÍ að leggja meiri áherslu á vinnustaðaeftirlit, kortleggja hvar vandinn liggur og miðla upplýsingum til félagsfólks okkar í ríkari mæli. Í öðru lagi þarf að tryggja févíti fyrir launaþjófnað til að koma í veg fyrir að atvinnurekendur geti hagnast á þessari skipulagðri brotastarfsemi. Í þriðja lagi þarf að koma að svörtum lista atvinnurekanda sem verða uppvísir að skipulögðum kjarabrotum eða launaþjófnaði, en ég hef unnið að því úrræði síðasta ári. Með því vil ég að VR upplýsi almenning um þá atvinnurekendur sem beita slíkum brellibrögðum og skekkja forsendur sanngjarnar samkeppni.

Erlent félagsfólk verðskuldar jafnrétti

Síðastliðið haust kom út tímamótaskýrsla frá Alþýðusambands Íslands sem heitir Íslenskur vinnumarkaður - Erlent fólk og brotastarfsemi á vinnumarkaði, en það er framhald á skýrslu frá 2019. Í upphaflegu skýrslunni var farið yfir launakröfur frá fjórum aðildarfélögum ASÍ, en í þeirri uppfærðu er farið yfir gögn frá átta félögum sem gerðu 342 launakröfur fyrir 250 milljónir króna. Af þeim launakröfum var rúmlega helmingur gerður fyrir erlent félagsfólk þrátt fyrir að það hafi aðeins verið 16,8% af mannfjölda landsins á þeim tíma.

Í sömu skýrslu kemur fram að þátttaka innflytjenda á vinnumarkaði er hærra en Íslendinga, en þrátt fyrir að vera tæplega 17% af mannfjölda voru þau 21% af starfandi fólki landsins. Þessi þátttaka og þessi dugnaður eru lífsnauðsynleg fyrir íslenskt atvinnulíf. Heilu atvinnugreinarnar gætu ekki starfað án þessarar þátttöku, og sum byggðarfélög myndu snarminnka eða hverfa ef innflytjendur væru ekki til staðar að byggja þau upp.

Þrátt fyrir að vera burðarbiti í íslensku atvinnulífi hefur ekki verið hugað nægilega vel að erlendu félagsfólki okkar og réttindi þeirra ekki tryggð með viðunandi hætti. Úrræðin sem ég nefndi hér að ofan, vinnustaðaeftirlit, févíti og svartur listi atvinnurekanda, munu nýtast öllu félagsfólk VR en munu líka vera stórt skref í átt að jafnrétti fyrir erlenda félagsfólk okkar.

Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar innan VR að allir njóti virðingu í störfum sínum og geti lifað með sæmd. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar að útrýma mismunun. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar að enginn hópur sé skilinn eftir og að við njótum öll góðs af afrakstri okkar.