Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
lagf.1.jpg

Almennar fréttir - 21.03.2019

Skemmtilegasta starf sem til er

VR hélt morgunverðarfund í gær, miðvikudaginn 20. mars, um áhrif sjálfvirknivæðingar á stöðu starfa í verslun. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, opnaði fundinn og sagði spennandi tíma vera framundan í verslun. Viðleitni VR væri að nálgast verkefnið á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Hann benti á að aukin sérhæfing og þekking væri lykill að samkeppni við netverslun. Neytendur hætti ekki að sækja sér sérhæfða þjónustu og þörf á þekkingu, fagmennsku og menntun muni aukast.
Ragnar Þór sagði verslunarstarfið skemmtilegasta starf sem til er en sjálfur starfaði hann í verslun í 25 ár áður en hann tók við formennsku VR.

Gunnur Líf Gunnarsdóttir og Hallur Geir Harðarson frá Samkaupum héldu erindi um þær breytingar sem hafa orðið á störfum verslunarfólks í Nettó, en Nettó rekur fyrstu netverslun með matvöru á Íslandi.

Árni Sverrir Hafsteinsson frá Rannsóknarsetri verslunarinnar hélt erindi um þær breytingar sem hafa orðið á störfum í verslun og einnig þær breytingar sem eru væntanlegar.

VR hefur í samvinnu við fleiri aðila komið á fót fagháskólanámi og vinnur nú að námi í verslun í samvinnu við Verslunarskóla Íslands og fleiri aðila. Þannig stuðlar VR að því að í boði verði nám fyrir starfsfólk í verslun sem nái utan um öll þau fjölbreyttu og áhugaverðu störf sem er að finna í verslun. Sjá nánar um fagháskólanámið hér.