Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
1.mai-fanar2

Launakönnun - 31.03.2015

Viðræður halda áfram

VR og Samtök atvinnulífsins hafa fundað síðustu daga og vikur um nýjan kjarasamning. Þessar viðræður hafa einkum snúið að sérkröfum VR eins og þær koma fram í kröfugerð félagsinsem kynnt var um miðjan febrúar. Það þokast hægt í þessum viðræðum en VR telur engu að síður ástæðu til að halda þeim áfram, en um sinn. 

Hvað varðar launalið kröfugerðarinnar ber enn mikið í milli og því miður er lítil hreyfing á þeim málum. Í kröfugerð VR er m.a. gerð krafa um launaþróunartryggingu í formi krónutöluhækkana. Á meðan félagið telur enn samningsgrundvöll verður kjaraviðræðum VR og SA ekki vísað til ríkissáttasemjara. Ef breyting verður þar á, mun samninganefnd félagsins hins vegar skoða stöðuna upp á nýtt og ræða næstu skref. 

Verkfallsnefnd og Vinnudeilusjóður 

Í ljósi þeirrar stöðu sem nú er á vinnumarkaði telur VR mikilvægt að haga málum þannig að félagið geti með stuttum fyrirvara tekið ákvarðanir um aðgerðir, ef nauðsyn krefur. VR hefur því skipað verkfallsnefnd en í nefndinni sitja einnig fulltrúar frá Landssambandi ísl. verzlunarmanna. Nefndin fundaði í vikunni, fór yfir stöðuna og skilgreindi hvar félögin geta beitt sér, komi til verkfallsaðgerða á almennum vinnumarkaði. 

Þá var á aðalfundi félagsins, sem haldinn var þann 25. mars sl., lögð fram og samþykkt tillaga að reglugerð Vinnudeilusjóðs VR. Hlutverk sjóðsins er að veita félagsmönnum VR, sem missa atvinnutekjur vegna vinnustöðvunar eða verkbanna, fjárhagsaðstoð. Reglugerðin verður birt á heimasíðu félagsins innan skamms.