Norðurland

Á Norðurlandi eru fjölmargar náttúruperlur sem laða til sín fólk á öllum aldri. Við vestanverðan Húnafjörð stendur klettadranginn Hvítserkur en uppi á hálendinu, norðan undir Kjalhrauni, eru litríkir Hveravellir, eitt af stærstu hverasvæðum landsins. Í Skagafirði eru þjóðsagnaeyjarnar Málmey og Drangey en Eyfirðingar státa af tignarlegum fjöllum og búsældarlegri sveit en víðast er að finna.

Í Þingeyjarsýslum er náttúran allt í senn hrjúf, mild og hrífandi. Margt ber fyrir augu, nánast hvergi er fleiri meistaraverk móður náttúru að finna. Þar eru fossarnir Goðafoss og Dettifoss, sá seinni aflmesti foss Evrópu. Neðan hans eru Jökulsárgljúfur , ein hrikalegustu árgljúfur landsins. Norðar eru Hljóðaklettar og Ásbyrgi, dulmögnuð hamrakvos sem Jökulsá bjó til. Suður í Dyngjufjöllum er Askja, sporöskjulaga sigdæld og eldstöð. Við Mývatn og í samnefndri sveit er rómuð náttúrufegurð og þar eru Dimmuborgir, sem eru heill undraheimur út af fyrir sig.

Sjá nánar um orlofshús VR á Norðurlandi hér:

Nánari upplýsingar um afþreyingu á Norðurlandi er að finna á www.visitakureyri.is