Almennar fréttir - 11.06.2020

Lagt inn í VR varasjóð

Framhaldsaðalfundur VR var haldinn þriðjudaginn 9. júní 2020. Flutt var skýrsla stjórnar og lagður fram ársreikningur félagsins til samþykktar. Afkoma félagsins hækkar um 552 milljónir milli ára og eru rekstrartekjur samtals 4.5 milljarðar kr, rekstrargjöld 4.7 milljarðar og tekjur til ráðstöfunar 927 milljónir króna.
Félagsmönnum fjölgaði um 3.7% og eru nú 37.375, en félagið sameinaðist Verslunarmannafélagi Suðurnesja árið 2019 og því má rekja fjölgunina að hluta til þess.

Stjórn VR lagði fram þrjár tillögur að lagabreytingum og voru þær allar samþykktar samhljóða. Fyrsta tillaga sneri að 3. gr. laga um félagsaðild og því að sjálfstætt starfandi og/eða eigendur ættu ekki rétt á að greiða atkvæði um kjarasamninga eða verkföll. Önnur tilagan var innskot í setningu 11. gr. laga um hæfi stjórnarmanna, að þeir skuli starfa á starfssviði VR. Síðasta tillaga stjórnar sneri að 25. gr. laga um félagsfundi og því að mál sem ekki hafa verið greind í auglýstri dagskrá félagsfundar væri ekki hægt að taka til endanlegrar úrlausnar á fundinum en gera mætti ályktun til leiðbeiningar fyrir stjórn félagsins.

Þá voru bornar upp tvær tillögur að breytingum á reglugerð Sjúkrasjóðs og voru þær báðar samþykktar einróma. Annars vegar er um að ræða breytingu á 10. gr. reglugerðarinnar um sjúkra- og slysadagpeninga að slysadagpeningar greiðist ekki vegna slysa af völdum þeirra vélknúnu ökutækja sem undanþegin eru vátryggingarskyldu. Og hins vegar breyting á 12. gr. reglugerðarinnar um slysabætur að slysabætur greiðist heldur ekki vegna slysa af völdum þeirra vélknúna ökutækja sem undanþegin eru vátryggingarskyldu. Er þetta viðbragð við þeirri breytingu á lögum að sum vélknúin ökutæki eins og t.d. torfærumótorhjól sem ekki eru götuskráð eru ekki lengur vátryggingarskyld.

Þá var samþykkt framlag í VR varasjóð fyrir árið 2019 og var það greitt inn í VR varasjóð í dag, fimmtudaginn 11. júní 2020.