Almennar fréttir - 24.06.2020
Næstu skref eftir atvinnumissi - Rafrænt örnámskeið á Mínum síðum
Félagsmönnum VR býðst að horfa á rafrænt örnámskeið en námskeiðið er hugsað fyrir þá sem sagt hefur verið upp störfum af hálfu atvinnurekanda og er um 90 mínútur. Námskeiðið verður aðgengilegt til 30. september á Mínum síðum á vr.is.
Í upphafi fyrirlesturs fer sérfræðingur af kjaramálasviði yfir réttarstöðu einstaklings gagnvart starfslokum af þessu tagi og mikilvæg atriði varðandi umsókn um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að uppsagnartímabili lýkur.
Því næst fjallar Jóhann Ingi Gunnarsson, sálfræðingur, um hvernig við getum unnið með og breytt viðhorfum okkar og venjum til að ná fram okkar besta þegar á reynir. Lögð er áhersla á gagnlegar aðferðir til að takast á við breytingar við krefjandi aðstæður.
Jóhann Ingi Gunnarsson hefur áratugareynslu af klínískri vinnu með einstaklinga auk þess sem hann hefur haldið fjölda námskeiða og fyrirlestra fyrir fyrirtæki og stofnanir bæði hér heima og erlendis. Einnig má nefna að hann hefur lengi starfað á vettvangi íþrótta, t.d. sem landsliðsþjálfari auk þess að vera andlegur styrktarþjálfari margra af okkar fremstu íþróttamönnum.