Vr Bjarg Skoflustunga

Almennar fréttir - 10.08.2023

Fyrsta skóflustungan að VR íbúðum

Formaður VR, Ragnar Þór Ingólfsson, og borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, tóku fyrstu skóflustunguna að nýjum fjölbýlishúsum VR á lóð félagsins í Úlfarsárdal í dag, fimmtudaginn 10. ágúst. Þar með er hafin langþráð uppbygging að leiguhúsnæði fyrir félagsfólk. Mikilvægur dagur í baráttunni fyrir réttlátum leigumarkaði, sagði formaður VR við tilefnið.

Verkið er unnið undir formerkjum Blævar íbúðafélags og eru fjölbýlishús VR fyrsta verkefni þess félags. Blær er systurfélag Bjargs íbúðafélags og er á sama hátt og Bjarg samstarfsverkefni ASÍ og BSRB. Bjarg mun annast umsjón með framkvæmdum og rekstur Blævar og mun reynsla og þekking Bjargs í uppbyggingu hagkvæmra íbúða nýtast Blæ í komandi verkefnum.

Reykjavíkurborg úthlutaði VR lóð við Silfratjörn í Úlfarsárdal árið 2021. Í byrjun þessa árs var skrifað undir samstarfssamning við Íslenska aðalverktaka um þróun svæðisins og í dag, fimmtudaginn 10. ágúst, var skrifað undir framkvæmdasamning um verkið og fyrsta skóflustungan tekin.

Byggðar verða 36 íbúðir, 2 - 4 herbergja, í tveimur fjölbýlishúsum og verða þær leigðar til félagsfólks VR. Stefnt er að því að íbúðirnar verði afhentar um áramótin 2024-2025. Notast verður við sama fyrirkomulag og Bjarg íbúðafélag hefur notað með góðum árangri við uppbyggingu á leiguhúsnæði.

VR hefur verið í forystu í húsnæðismálum innan verkalýðshreyfingarinnar, ekki síst þegar kemur að stöðu leigjenda. „Dagurinn í dag markar tímamót en mikil vinna hefur átt sér stað síðustu ár til að koma okkur á þennan stað,“ segir Ragnar Þór. „Blær er til marks um nýja hugsun á leigumarkaði og brýtur blað í byggingasögunni. Félagið er ekki óhagnaðardrifið en leggur höfuðáherslu á hagkvæma leigu, gæði og búsetuöryggi þeirra sem leigja. Hugmyndafræðin á sér fyrirmynd á Norðurlöndunum og í Evrópu þar sem lífeyrissjóðir fjárfesta í uppbyggingu á leigumarkaði. Við vonumst til þess að íslenskir lífeyrissjóðir og aðrir sambærilegir langtímafjárfestar komi að framtíðaruppbyggingu Blævar. Nú er bara að láta hendur standa fram úr ermum og hefja verkið.“

Á myndinni að ofan, frá vinstri: Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ, Sigrún Guðmundsdóttir, í stjórn VR, Jennifer Schröder, í stjórn VR, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Dagur B. Eggertsson, borgarstjórinn í Reykjavík, Selma Björk Grétarsdóttir, varaformaður VR, Bjarni Þór Sigurðsson, í stjórn VR, og Valur Hreggviðsson, framkvæmdastjóri framkvæmda hjá ÍAV.