Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
20230323 Ernir DSF9682

Almennar fréttir - 29.03.2023

VR styrkir Neytendasamtökin

Í tilefni af 70 ára afmæli Neytendasamtakanna hefur VR ákveðið að styrkja samtökin um 4 milljónir króna. Ríkisstjórnin hefur einnig lagt samtökunum til styrk að upphæð 3 milljónir króna. Samtökin hyggjast nota styrkina til þess að gera úttekt á tryggingamarkaðnum á Íslandi. Meðal þeirra þátta sem verða rannsakaðir eru hátt verð trygginga á Íslandi og skilmálar þeirra, lagaumhverfi og tjónamat og rekstrarform tryggingafélaga. Markmiðið með rannsókninni er að sýna fram á hentugasta tryggingakerfið með tilliti til verðs og tryggingaverndar.

Neytendasamtökin leituðu til viðskiptaráðherra og VR, auk annarra stéttarfélaga og óskuðu eftir fjárframlagi og er það mat VR að rannsókn af þessu tagi sé bæði mikilvæg og tímabær fyrir íslenska neytendur.

Til gamans má geta að eitt af fyrstu verkefnum Neytendasamtakanna fyrir 70 árum var að samræma opnunartíma verslana í samvinnu við VR, sem þá hét Verslunarmannafélag Reykjavíkur. Því má segja að VR fagni 70 ára samstarfsafmæli með samtökunum.


Mynd: Ernir Eyjólfsson/Fréttablaðið