Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
Vr Utsynismyndir 1

Almennar fréttir - 27.11.2020

Stuðningslán til heimilanna

Heimilin í landinu hafa setið eftir í aðgerðum stjórnvalda sem eiga að tryggja viðspyrnu í kjölfar Covid faraldursins, eins og fram kemur á vef VR. Þau hafa greitt að stórum hluta fyrir sín úrræði sjálf með því að ganga á séreignarsparnað sinn.

VR hefur lagt fram hugmynd að sértækum stuðningi sem tryggir afkomuöryggi til handa þeim heimilum sem hafa orðið fyrir atvinnumissi og tekjufalli vegna Covid. Hugmyndin var kynnt fyrir ASÍ og er hún nú hluti af stefnu sambandsins. VR og ASÍ kynntu svo hugmyndina fyrir stjórnvöldum fyrir rúmum mánuði en lítið hefur gerst síðan. Því kynnum við þessa hugmynd fyrir félagsmönnum og heimilunum í landinu. Tíminn er knappur og mörg heimili þegar komin á ystu nöf.

Hugmynd VR felur í sér aðkomu bæði ríkisins og bankanna. VR leggur til að veitt verði stuðningslán til heimila með 100% ríkisábyrgð og afslætti af heildartekjuskatti til að mæta afborgunum af þeim. Reiknað er með að bankar meti greiðslugetu heimilanna og veiti þeim framfærslulán í formi mánaðarlegrar lánalínu með ríkisábyrgð. Þannig geti heimilin áfram staðið við skuldbindingar sínar og framfleytt sér og sínum á meðan tekjubrestur varir. Slík lánalína væri til allt að 18 mánaða, ef þörf krefur.

Efnahagslegar afleiðingar faraldursins leggjast með misþungum hætti á heimilin í landinu og það er mikilvægt að samfélagið taki höndum saman til að aðstoða þau heimili sem þurfa á því að halda. VR leggur til að endurgreiðsla stuðningslána verði í gegnum skattkerfið. Gjalddagi verði einu sinni á ári og greiðist með afslætti af heildartekjuskattsgreiðslum. Endurgreiðslutími verði tíu ár.

Áætlað kostnaðarmat við stuðningslánin er 18 milljarðar króna. Aðrar aðgerðir í þágu heimilanna, eins og framlenging á tekjutengdum atvinnuleysisbótum og hækkun grunnbóta, sem og bóluefni við veirunni, munu án efa draga úr þörfinni á stuðningslánum og minnka kostnað hins opinberra vegna þeirra. Til að setja lánin í samhengi má nefna að ábyrgð ríkissjóðs vegna lánalínu Icelandair er rúmir 16 milljarðar króna og tekjufallstyrkir til fyrirtækja eru áætlaðir allt að 31 milljarður króna.

________________________________
Myndin hér að neðan sýnir ferlið við stuðningslánin.