Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
mynd_01a.jpg

Launakönnun - 09.05.2017

Heildarlaun VR félaga 630 þúsund á mánuði að meðaltali

Laun félagsmanna VR hækkuðu um 5,5% milli janúar 2016 og janúar 2017 að meðaltali samkvæmt niðurstöðum árlegrar launakönnunar félagsins. Launamunur kynjanna breyttist ekki marktækt á milli ára en vinnutíminn styttist hins vegar um hálfa klukkustund og starfsaldur VR félaga lækkaði.

Grunnlaun félagsmanna VR í janúar síðastliðnum voru að meðaltali 588 þúsund krónur á mánuði og heildarlaun voru 630 þúsund krónur að meðaltali. Hækkunin nemur 5,5% frá sama mánuði árið 2016, og á það bæði við um grunn- og heildarlaun. Laun fyrir klukkustund hækka hins vegar umtalsvert meira samkvæmt launakönnuninni, eða um 6,9% yfir sama tímabil. Launavísitala Hagstofunnar hækkaði um 8,7% á milli 2016 og 2017 en launavísitala VR, sem mælir breytingar á launum um 70% félagsmanna skv. greiddum iðgjöldum, hækkaði um 6% á milli ára. 

Nokkrar breytingar hafa orðið á milli ára sem geta skýrt það að launahækkun skv. launakönnun í ár er minni en sem nemur kjarasamningsbundinni launahækkun milli janúarmánaða 2016 og 2017. Svarendahópurinn er öðruvísi samsettur en á síðasta ári, einkum er mikil fjölgun í svörum starfsmanna í lægri launuðum atvinnugreinum og starfsstéttum. Til dæmis fjölgar svarendum í ferðaþjónustu um hátt í þriðjung milli ára. Þá er vinnuvika svarenda marktækt styttri í ár sem nemur hálfri klukkustund og starfsaldur félagsmanna hefur lækkað um hálft ár.

Launamunur kynjanna óbreyttur

Kynbundinn launamunur eykst á milli ára en sú breyting er ekki martæk. Kynbundinn launamunur er nú 11,3% en var 10% á síðasta ári. Munur á heildarlaunum er 15%. Þó breytingin á milli áranna 2016 og 2017 sé ekki marktæk hefur munurinn aukist á hverju ári frá árinu 2014 þegar kynbundinn launamunur var 8,5% eða það lægsta sem mælst hefur í launakönnunum VR. Lítið hefur þokast í baráttunni fyrir jöfnum launum karla og kvenna innan VR síðustu ár, samkvæmt niðurstöðum launakannanna félagsins. Fara verður aftur til aldamótaársins til að sjá marktæka lækkun en þá mældist kynbundinn launamunur 15,3%. 

Styttri vinnutími og lægri starfsaldur

Vinnutími félagsmanna VR styttist marktækt á milli áranna 2016 og 2017 eða um hálfa klukkustund. Vinnuvikan er nú að meðaltali 43,2 klst. Þá lækkar starfsaldur einnig á tímabilinu um hálft ár og mældist að meðaltali 9 ár í könnuninni. Þetta kann að skýrast af aukinni hreyfingu á vinnumarkaði, mun fleiri svarendur fóru í ráðningarviðtal á síðasta ári en áður eða 16% þeirra sem fóru í viðtal af einhverju tagi.